Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 13:44:44 (1903)

2003-11-19 13:44:44# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Björgvin G. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Lækkun útskriftaraldurs úr framhaldsskólum er grundvallarbreyting á íslensku menntakerfi. Slík breyting þarfnast vandaðs undirbúnings. Forsenda hennar er víðtækt samráð við menntasamfélagið og síðast en ekki síst þarf hún að byggjast á heildstæðri skoðun á skólakerfinu öllu, frá leikskóla og upp í háskóla. Samf. telur að þar skipti m.a. máli að skoða tengingu grunnskóla og framhaldsskóla. Samkeppnishæfni Íslands í framtíðinni ræðst ekki síst af því að unga fólkið okkar standi jafnfætis jafnöldrum sínum í grannlöndunum. Af þeim sjónarhóli skiptir það þess vegna töluverðu máli fyrir íslensk ungmenni ef jafnaldrar þeirra geta hafið sérhæft nám á háskólastigi eða þátttöku í atvinnulífinu ári fyrr en þeir.

Markmiðið með lækkun útskriftaraldurs úr framhaldsskólum hlýtur því að vera að búa nemendurna betur undir frekara nám og störf á vinnumarkaði. Tillögur menntmrn. eins og þær birtast í skýrslu verkefnisstjórnar ráðuneytisins eru talsvert langt frá því að ná þessum markmiðum að mati Samf. Þar er t.d. lagt til að nám til stúdentsprófs verði skorið niður um 20% og þannig náist hreinn sparnaður upp á 1,7 milljarða á ári. Það er því engu líkara en að hæstv. menntmrh. líti á lækkun á útskriftaraldri sem sérstaka sparnaðaraðgerð en það er kolröng nálgun. Samf. telur að nálgun ráðuneytisins feli í sér nokkrar hættur. Stúdentsprófið sem slíkt mundi gengisfalla, námið yrði einsleitara og nauðsynlegur fjölbreytileiki skólanna hyrfi. Það er jafnvel hætta á því að þessi aðgerð geti aukið á brottfall sem er þó í dag einn svartasti blettur framhaldsskólans að mati Samf.

Í tillögunum er ekki að finna þær forsendur sem Samf. telur að verði að liggja til grundvallar því að lækka útskriftaraldur. Þær verða að fela í sér að gæði þeirrar menntunar sem einstaklingurinn aflar sér þegar framhaldsskóla sleppir hafi aukist og þar með undirbúningurinn fyrir frekara nám eða þátttöku á vinnumarkaði. Lækkun útskriftaraldurs verður því m.a. að byggja á betri tengingu grunnskólans og framhaldsskólastigsins til að nýta betur tíma á námsstigunum fram að útskrift. Verk- og listnám verður að stórefla og brýnt er að fjölga valkostum í formi styttri námsbrauta sem undirbúa þátttöku í atvinnulífinu. Ein af forsendunum á líka að vera að skapi breytingin einhvers staðar aukið svigrúm á að nota það svigrúm til að bæta skólakerfið og starfskjör kennara.

Samf. hefur líka alltaf lagt áherslu á að forsenda þess að ráðist sé í grundvallarbreytingar eins og lækkun útskriftaraldurs sé að þokkaleg sátt ríki um slíka breytingu. Tillögur ráðuneytisins koma hins vegar eins og þruma úr heiðskíru lofti án nokkurs verulegs samráðs við kennarasamtökin í landinu. Menntagáttin á netinu er vissulega þarft og gott framlag en hún kemur á engan hátt í stað ítarlegs samráðs við skólasamfélagið.

Hið sameiginlega markmið okkar allra hlýtur að vera betri menntun og betri undirbúningur íslenskra námsmanna fyrir starfsævina. Þau nást einfaldlega ekki með tillögum hæstv. ráðherra. Það er augljóst öllum sem bera sig eftir málefnalegri gagnrýni skólasamfélagsins að ekki yrði um slíkt að ræða. Í því ljósi vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. menntmrh.:

1. Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að koma til móts við þá gagnrýni sem fram kemur á tillögurnar þannig að tryggt verði að ekki verði um að ræða gengisfellingu á stúdentsprófinu eða niðurskurð á fjárframlögum til framhaldsskólastigsins?

2. Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að draga framkomnar tillögur um styttingu stúdentsprófs til baka og lýsa því yfir að ekki verði tekin ákvörðun um lækkun útskriftaraldurs úr framhaldsskólum nema á grundvelli nýrra tillagna sem taka mið af skólakerfinu öllu?