Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 13:54:18 (1905)

2003-11-19 13:54:18# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem haldinn var fyrir skemmstu var ályktað um styttingu náms til stúdentsprófs. Í ályktuninni er því lýst yfir að þessi skýrsla hér sé einhliða og illa ígrunduð og sé þess vegna ónothæfur grunnur til að byggja á frekari vinnu enda engin fagleg rök færð fram í henni fyrir tillögu hennar. Tillaga skýrslunnar er eins og hér hefur komið fram að stytta eigi námstíma til stúdentsprófs með því að skera niður nám á framhaldsskólastigi um 537 klukkustundir, eða heil 20%. Og maður spyr sig óneitanlega hvers vegna sjónum sé beint að framhaldsskólanum. Er það vegna þess að hann er þyrnir í augum stjórnvalda? Er það vegna þess að vandamál framhaldsskólans eru orðin stjórnvöldum ofviða og það er best að skera þau bara frá, klippa þau af og reyna að henda þeim? Hvað með brottfallið, raunhæfar tillögur gegn því, ómögulegt reiknilíkan eða dýrt starfsnám? Er þetta ekki bara tómt vesen? Eigum við ekki bara að klippa sem mest af þessum framhaldsskóla í burtu?

Virðulegi forseti. Það er enginn misskilningur í röðum þingmanna eða flokksmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs varðandi þessa skýrslu. Við vitum að það á að reyna að hafa hana sem grundvöll umræðu og við teljum hana stríða gegn gildandi skólastefnu. Við teljum tillöguna gera námið fábreyttara, takmarka val nemenda og gera námið óneitanlega einsleitara. Það er þvert á gildandi stefnu því að gildandi stefna hefur að geyma ákvæði um sveigjanleika, um fjölbreyttar námsbrautir og sérhæfðar, um raunhæfar aðgerðir gegn brottfalli og um fjölgun starfsmenntabrauta.

Má ég spyrja hæstv. menntmrh.: Er búið að segja upp gildandi skólastefnu, ákvæði sem gengu í gildi með nýrri menntastefnu sumarið 1999? Það er þá ekki langur líftími skólastefnu.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja að skýrsla þessi fjallar um ytra skipulag. Hún fjallar um magn og samanburð á ytra skipulagi og magni. Hún kemur lítið inn á námsinnihald og hún fjallar ekkert um námskröfur. Það er þess vegna sem þessi grunnskýrsla er ónothæfur grunnur undir umræðu um faglega skólastefnu.