Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 13:58:51 (1907)

2003-11-19 13:58:51# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Nám í framhaldsskólum er mjög mikilvægt, ekki einungis vegna þess að fólk er að tileinka sér nytsamlegar staðreyndir heldur ekki síður vegna þess að á unglingsárum er fólk að taka út ákveðinn félagslegan þroska. Fjöldi ára skiptir e.t.v. ekki öllu máli, þ.e. hvort árin verða þrjú eða fjögur, aðalatriðið er að fólk hljóti góða undirstöðumenntun.

Við í Frjálsl. erum hlynnt styttingu náms í framhaldsskólum úr fjórum í þrjú. Nú sjáum við í flóru framhaldsskólanna ýmsar styttri námsbrautir, svo sem alþjóðlegt IB-nám í Menntaskólanum í Hamrahlíð og nýja tveggja ára hraðbraut til stúdentsprófs. Við erum hins vegar alfarið á móti þeirri aðferð hæstv. menntmrh. að keyra í gegn breytingar á námi í framhaldsskólum án samráðs við skólamenn. Það væri án efa miklu árangursríkara að vinna með kennurum og skólastjórnendum að breyttu skipulagi. Ekki þarf einungis að vinna með kennurum á framhaldsskólastigi heldur einnig með kennurum í efri bekkjum grunnskólans ef skipulagsbreytingarnar eiga að heppnast og þá verður einnig að gera ráð fyrir þeim í námskrá grunnskólanna.

Því miður hefur þessi ríkisstjórn tamið sér í æ ríkari mæli að valta yfir sjónarmið fólks og ætlar að keyra í gegn ýmsar vanhugsaðar aðgerðir. Í gær lagði hæstv. fjmrh. fram lagafrv. til þess að ganga á uppsagnarrétt opinberra starfsmanna, og þar með talið framhaldsskólakennara, með mjög vafasömum rökum. Væri ekki nær að vinna í samráði við framhaldsskólakennara að góðri lendingu í þessu máli?

Athyglisvert er að skoða hverjir unnu að umræddri skýrslu um styttingu námstíma til stúdentsprófs en það voru starfsmenn menntmrn., verkefnisstjóri ráðuneytisins, tveir lögfræðingar og deildarstjórar í fjárhags- og eignadeild. Hefði ekki verið nær og árangursríkara fyrir málið að í starfshópnum hefðu einnig verið fulltrúar úr skólakerfinu, kennarar og skólastjórnendur?