Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:05:38 (1910)

2003-11-19 14:05:38# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Verkefnastjórn á vegum menntmrn. hefur gefið út tillögu þess efnis að stytta beri nám til stúdentsprófs um eitt ár eins og komið hefur fram. Lagt er til að skólaárið verði lengt um 10 daga en engu að síður á að fækka kennslustundum um 20%. Að mati skýrsluhöfunda á námið að verða innihaldsríkara við þessa breytingu. Mér finnst þetta hæpin fullyrðing þar sem ljóst má vera að námið verður einsleitara, fjölbreytni verður minni og val nemenda mun takmarkast mun meira en er í dag.

Staða framhaldsskólanna er tilefni til sérstakrar umræðu og það er til alvarlegrar umhugsunar hve fjölbrautaskólarnir eiga erfitt með að halda uppi fjölbreyttu námi og hve verknám hefur dregist saman og er vart valkostur fyrir nemendur vítt og breitt um landið. Þetta er staðan í dag. En með þessum tillögum er mun líklegra að verið sé að líta til enn frekari sparnaðar undir því yfirskyni að sparnaðurinn sé á faglegum forsendum.

Helstu rökin fyrir því að stytta námstíma framhaldsskólanna eru þau að rétt sé að samræma skólalok og aldur nemenda við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, þ.e. að nemendur útskrifist 18 ára og byrji því fyrr í háskólanámi. Staðreyndin er sú að víða erlendis eru fyrstu ár háskólanáms mun meiri grunnkennsla en hér hefur tíðkast og hið raunverulega akademíska nám hefst því á svipuðum aldri og hér gerist. Hætt er því við að stytting náms til stúdentsprófs, eins og hér er lagt til, skapi vanda á háskólastigi og koma verði á einhvers konar fornámi svo nemendur séu undirbúnir til að takast á við hið akademíska nám og þeir sem útskrifist úr háskólum eða öðru framhaldsnámi standi jafnt að vígi og nemendur úr sambærilegum erlendum skólum. Fagleg rök í þessu máli eru gagnrýniverð og mætti ætla að verið væri að láta undan kröfum Samtaka atvinnulífsins um að fá fólk fyrr út á vinnumarkaðinn. Vandi vinnumarkaðarins er ekki sá að fólk sé of vel menntað heldur hið gagnstæða.