Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:07:52 (1911)

2003-11-19 14:07:52# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Um leið og ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram vil ég nefna það að mér sýnist að hin annars ágæta skýrsla menntmrn. um styttingu náms til stúdentsprófs taki ekki á þeim mikla vanda sem brottfall úr framhaldsskóla hér á landi í samanburði við nágrannalöndin er. Ég tel að kanna þurfi áhrif á brottfall áður en skref eru stigin í þá átt að stytta námstíma til stúdentsprófs.

Oft er talað að um 35--40% nemenda hverfi frá námi í framhaldsskóla hér á landi en rannsóknir benda til þess að í almennu bóknámi og stúdentsnámi sé brottfallið allt að 58%. Í kosningastefnuskrá okkar framsóknarmanna síðastliðið vor var lögð áhersla á að draga úr brottfallinu og í ályktunum síðasta flokksþings okkar er t.d. bent á þá leið gegn brottfallinu að stórauka náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum í samvinnu við atvinnulífið.

Virðulegur forseti. Helstu röksemdir sem nú eru færðar fram fyrir styttingu námstímans lúta að aukinni þjóðhagslegri hagkvæmni. Sömu röksemdum má beita sem rökstuðningi fyrir því að þegar verði mótuð stefna um það til hvaða aðgerða eigi að grípa til að draga úr brottfalli og þeirri sóun á tíma og hæfileikum stórs hóps ungs fólks í landinu sem af brottfallinu leiðir.