Stytting náms til stúdentsprófs

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:16:15 (1915)

2003-11-19 14:16:15# 130. lþ. 31.94 fundur 173#B stytting náms til stúdentsprófs# (umræður utan dagskrár), Flm. BjörgvS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hér hafa fallið mikilvægar yfirlýsingar í umræðunni um styttingu náms til stúdentsprófs. Það hefur komið fram í máli stjórnarliða að ekki er einhugur um málið. Í fyrsta lagi kom t.d. fram hjá hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur að málið lyktaði af sparnaði og einungis ætti að spara. Hún tók því undir skoðun Samfylkingarinnar að það þyrfti að fara öðruvísi í málið en lagt er til í skýrslunni.

Í öðru lagi ber að fagna þeirri mikilvægu yfirlýsingu sem kom fram í máli hæstv. menntmrh. að ekki liggi fyrir að sú leið sem fram kemur í umræddri skýrslu verði farin. Það er grundvallaratriði í þeirri umræðu sem fram hefur farið í dag á vegum Samfylkingarinnar að ekki verði farin sú leið einhliða niðurskurðar um 20% á námi með sparnaði í skólakerfinu, því ljóst er að námið gengisfalli verulega í stað þess að styrkjast og eflast eins og hlýtur að vera markmiðið með öllum breytingum í skólakerfinu. Því vil ég að lokum skora á hæstv. ráðherra að fara þá leið sem Samfylkingin leggur til og láti af því að nota umræddar skýrslur sem útgangspunkt í þessari umræðu.

Leiðin sem skýrslan leggur til er ekki rétta leiðin. Það þarf að skoða málið á nýjan leik frá grunni. Hæstv. ráðherra þarf að draga núverandi hugmyndir til baka og hefja vinnuna að nýju í nánu samráði við skólasamfélagið. Sú vinna verður að byggja á því að skoða allt skólakerfið heildstætt með það að markmiði að stytta námið og lækka útskriftaraldur. Hún má ekki grundvallast á því að námið gengisfalli með flötum niðurskurði og skertum fjárframlögum til framhaldsskólastigsins. Þá er verr af stað farið en heima setið.