Stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:31:07 (1920)

2003-11-19 14:31:07# 130. lþ. 31.1 fundur 51. mál: #A stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli tekið hér upp og þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir það og einkanlega líka svör forsrh. í málinu. Hér er að mínu viti verið að hreyfa afar þörfu máli. Einnig er til staðar á svæðinu enn þá söguleg þekking, t.d. af eldri atvinnuháttum og eldri atvinnusögu og svæðið er að mörgu leyti mjög sérstakt eins og fram hefur komið. Þó að eldri atvinnuhættir eins og reki, selur og dúntekja gefi ekki lengur sömu tekjur og áður hefur svæðið ýmsa möguleika. Það liggur mjög vel við sjósókn eins og dæmin undanfarin tvö ár sýna þegar smábátaflotinn hefur sest þar að yfir sumartímann og borið að landi mikinn afla og mikil verðmæti. Það er því eftir miklu að slægjast að halda þessu svæði í byggð og ég fagna því að málið skuli komið í þann farveg sem hér hefur verið lýst.