Stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:38:17 (1925)

2003-11-19 14:38:17# 130. lþ. 31.1 fundur 51. mál: #A stuðningur við byggð og búsetu í Árneshreppi á Ströndum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Án þess að ég ætli að fara að líkja íslenska stjórnkerfinu við almættið, þá er mér óhætt að minna á að myllur guðs mala hægt en mala vel og ég er sannfærður um að þó að málið hafi farið allan þennan farveg sem lýst var, þá er ríkur vilji ekki bara hjá stjórnkerfinu, heldur veit stjórnkerfið um að ríkur vilji er hjá Alþingi til að vinna því gagn. Ég tel að sú samstaða sem náðist um þáltill. hafi verið afar sérstæð í þinginu og mikilvæg þannig að ríkisvaldið í hvaða mynd sem það er statt hefur hvorki efni né ástæðu til að draga lappirnar hvað þetta mál varðar.

Varðandi það sem hv. þm. Kristján Möller nefndi áðan, þá hef ég þá trú á byggðum landsins að þeim muni flestum farnast vel þrátt fyrir breytingar og umrót sem eru í veröld allri og í landi okkar, sérstaklega hvað byggðamál varðar á sumum sviðum. Ég hef þá trú að í flestum tilvikum muni þar vel vegna. Ég held einmitt að sú niðurstaða þingsins að álykta sérstaklega --- það var ekki niðurstaða ríkisstjórnarinnar, það var niðurstaða þingsins --- um þetta byggðarlag sýni einmitt þá sérstöðu og sé því ástæðulaust að draga ályktanir um önnur byggðarlög hvað þá niðurstöðu varðar sem þingið komst að um þetta byggðarlag. En ég er bjartsýnn í þeim efnum, bæði fyrir hönd byggðanna allra og fyrir hönd þessa sérstæða mannlífs sérstaklega.