Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:40:21 (1926)

2003-11-19 14:40:21# 130. lþ. 31.2 fundur 144. mál: #A flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Umræðan um verkaskiptingu og valddreifingu á milli ríkis og sveitarfélaga hefur verið talsverð á liðnum missirum. Sveitarfélögin eru hins vegar mörg hver fjárhagslega komin upp í rjáfur og fjárhagsstaða þeirra verulega erfið og þau mörg hver veigra sér við frekari verkefnaflutningi þar til tekjuskiptingin hefur verið leiðrétt.

Brýnt er að efla sveitarstjórnarstigið enn frekar með því að stækka og fækka sveitarfélögum, auka tekjur þeirra og kanna kosti þess að flytja frá ríki til sveitarfélaga rekstur á fleiri málaflokkum. Færa má rök fyrir því að nærþjónustan batni eftir því sem hún stendur nær íbúum hvers sveitarfélags og aðgangur þeirra að kjörnum fulltrúum sínum eykst. En því verða hins vegar að fylgja nægir fjármunir og öflugir tekjustofnar.

Dæmi um verkefni sem stefna á að flytja ætti og mætti til sveitarfélaganna eru framhaldsskólarnir, hluti löggæslunnar jafnvel, málefni fatlaðra og hluti af heilbrigðisþjónustu svo sem öldrunarþjónustu. Slíkur verkefnaflutningur er einnig nauðsynlegur liður í því að snúa vörn í sókn á landsbyggðinni sem er annar mikilvægur þáttur í eflingu sveitarstjórnarstigsins og tilfærslu verkefna yfir til sveitarfélaganna. Til að slíkt takist verða stjórnsýslulegar einingar landsbyggðarinnar að hafa nægan styrk til áhrifa á samfélagsþróunina og geta staðið undir verkefnum af öryggi og festu. Núverandi fjöldi og smæð sveitarfélaganna margra hverra hamlar slíkri þróun og því brýnt að skoða í samhengi við verkefnaflutning. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. hvort hafinn sé undirbúningur á vegum ríkisstjórnarinnar að annars vegar frekari flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga, t.d. á rekstri framhaldsskóla eða löggæslu og hins vegar hvort hafin sé endurskoðun á tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi breyttrar verkaskiptingar stjórnsýslustiganna.