Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:47:55 (1929)

2003-11-19 14:47:55# 130. lþ. 31.2 fundur 144. mál: #A flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að hreyfa þessum mikilsverðu málum og veigamiklu. Ég undirstrika það að ég hef ævinlega verið talsmaður þess að stefna ætti að því að flytja sem flest verkefni heim í hérað en til þess þurfa forsendur auðvitað að vera í lagi. Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. skautaði býsna hratt fram hjá þeirri veigamiklu spurningu hvernig hátta ætti tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Nú eru ekki nema rétt u.þ.b. þrjú eða fjögur ár síðan tekið var stórt skref í þeim efnum, að vísu allt of lítið miðað við þær forsendur sem til stóðu. Og það er rétt sem hér hefur komið fram að fjárhagur sveitarfélaganna er býsna bágur. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh. að því hvort ríkisstjórnin í heild stefni að því að fara í viðræður við sveitarfélögin um að gera þar bragarbætur á. Einnig vil ég leggja þá samviskuspurningu fyrir hæstv. ráðherra hvort hann telji tekjuskiptinguna eins og hún er í dag milli ríkis og sveitarfélaga vera réttláta og sanngjarna.