Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 14:59:37 (1936)

2003-11-19 14:59:37# 130. lþ. 31.3 fundur 297. mál: #A samþjöppun á fjölmiðlamarkaði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur það að verða fyrst til þess að hreyfa þessu mikilvæga máli í þinginu. Varðandi fyrirspurnina hvort þróun mála á fjölmiðlamarkaði að undanförnu hafi verið til umfjöllunar í ríkisstjórninni, þá er því til að svara að það hefur borið á góma í ríkisstjórninni en ekki verið rætt með formlegum hætti svo það sé nefnt, og ég hygg að það sama sem eigi við um þingflokka stjórnarflokkanna.

Varðandi síðari spurninguna um það hvort ráðherra telji koma til greina að sett verði lög til að hindra frekari samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og tryggja betur en nú er gert að fjölmiðlar séu sjálfstæðir og óháðir, þá tel ég að það sé alls ekki hægt að útiloka það að til slíkrar lagasetningar komi og það mætti jafnvel færa fyrir því rök að í því fælist tómlæti af hálfu þingsins við núverandi aðstæður að láta ekki koma til athugunar a.m.k. slíka lagasetningu.

Víðast hvar í heiminum þar sem ég þekki til gilda slíkar reglur. Það er þó ekki undantekningarlaust og við tilheyrum, svo merkilegt sem það er, undantekningunum hvað þetta varðar. Til að mynda í Bandaríkjunum er bannað að þeir sem eiga dagblöð eigi jafnframt sjónvarpsstöðvar. Það er lagt blátt bann við því. Þó er það svo að Bandaríkjamenn ganga afar langt, dómstólar til að mynda í að tryggja tjáningarfrelsið sem stjórnarskráin bandaríska tryggir. Í Svíþjóð mun það vera svo að dagblöð, áskriftardagblöð til að mynda sem koma út og menn líta þannig á að séu til þess fallin að skapa frjóa og fjölbreytta umræðu, njóta niðurgreiðslu til áskrifenda til þess að tryggt sé að slík blöð fái þrifist því menn líta svo á að kosningarrétturinn hinn almenni sé ekki virkur nema umræða í fjölmiðlum sé tiltölulega fjölbreytt og frjáls. Ég minni á að það kom nýlega fram í viðtali við fræðimann hér að þegar eigendur Dagens Nyheter ætluðu að kaupa Svenska Dagbladet þá skipti ríkisstjórnin sér af því til að koma í veg fyrir það að þarna yrði um samþjöppun að ræða.

Fréttamenn ágætir tala jafnan um það að fréttaeiningar fjölmiðlanna séu afar sjálfstæðar og vel má vera að það sé að verulegu marki. Þó er það þannig að víðast hvar í heiminum er talið að eignarhaldið ráði úrslitum í þeim efnum. Það er eignarhaldið sem leiðir til þess með hvaða hætti viðkomandi fréttastofa eða fréttaeining er skipuð í upphafi og það mun síðan hafa áhrif á það hvernig fréttastofan vinnur, þó að eigendur séu kannski ekki daglega að skipta sér af því hvernig fréttastofurnar séu reknar. Þannig að það er eignarhaldið sem skiptir þarna meginmáli.

Auðvitað er það rétt sem hv. þm. sagði að það er fyrsta skilyrðið að eignarhaldið sé ljóst. Hér bjuggum við við það varðandi eitt dagblaðið, að enginn hafði hugmynd um það mánuðum og jafnvel árum saman hverjir áttu það blað og þeir eigendur gátu síðan látið það blað skjóta á andstæðinga sína ímyndaða eða raunverulega eftir atvikum úr launsátri. Þetta mundi hvergi í heiminum vera látið líðast.

Nú standa mál þannig til að mynda í dag að það veit enginn hver á Stöð 2, einu frjálsu sjónvarpsstöðina í landinu svo maður noti orðið frjálsa án þess að halla nokkuð á Ríkisútvarpið. Ég tel ekki að það eigi að gera það. En stundum er látið í veðri vaka að Kaupþing Búnaðarbanki eigi þessa stöð en það er einnig látið í veðri vaka að tiltekinn nafngreindur einstaklingur í kaupsýslu eigi nú þegar orðið þessa stöð. Það er auðvitað algerlega óboðlegt að slík staða sé uppi. Og það er reyndar ekki boðlegt heldur að einn af stærstu bönkum þjóðarinnar taki þátt í viðskiptabrellum af þessu tagi og hafi ekki sína hluti á tæru gagnvart almenningi í þessum efnum. Það er ekki búandi við það. Og reyndar er maður mjög hugsandi orðinn yfir því, svo maður komi því að hér, með hvaða hætti íslensku bankarnir, allir stærstu bankarnir eru farnir að haga sér með afskiptum sínum og inngripum í íslenskt atvinnulíf. Þar eru menn komnir út á mjög hála braut, að mínu viti, og ég, sem hef trúað og stutt og verið stoltur af því að standa fyrir einkavæðingu á slíkum bönkum, tel jafnframt að það eigi að reyna að halda þessum bönkum að sínum verkefnum og þeir séu komnir langt út fyrir þau mörk sem þeir eiga að sinna og skyldum gagnvart almenningi í þeim efnum, svo ég bæti því nú við fyrirspurn hv. þm. og ég vona að ég sé ekki að fara út fyrir rammann með því. En ég þakka fyrirspyrjandanum aftur fyrir að opna þessa umræðu með þessum hætti.