Sameining ríkisháskólanna

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:29:15 (1951)

2003-11-19 15:29:15# 130. lþ. 31.5 fundur 103. mál: #A sameining ríkisháskólanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru komu fram athyglisverðar hugmyndir hjá Ólafi Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, um að sameina ætti alla ríkisháskólana undir eitt merki, einhvers konar regnhlíf þar sem skólar og deildir geta haldið verulegu sjálfstæði sínu undir merki Háskóla Íslands. Undir þessar hugmyndir tók Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, og taldi að nauðsynlegt væri að skoða þær mjög vandlega. Mikilvægast við slíkan samruna er að sjálfsögðu að halda fjölbreyttu og aðgengilegu námsframboði samhliða hagræðingu í stjórnsýslunni. Við sameiningu ríkisháskólanna eru að mínu mati margir augljósir kostir hvað varðar hagræðingu og sparnað við margs konar starfsemi sem allir skólarnir þurfa að standa fyrir, svo sem nemendaskrá, innritunarkerfi, þjónustu við tölvukerfi, fjarkennslukerfi, námsráðgjöf o.fl. svo að eitthvað sé nefnt. Brýnt yrði við slíkar sameiningarhugmyndir eða undirbúning að gæta þess að slík sameining yrði ekki til að auka miðstýringu heldur fyrst og fremst sparnað við stjórnsýslu og það að enn öflugra háskólakerfi yrði til í landinu í hinni hörðu samkeppni við alþjóðlega háskóla. Markmiðið með slíkri sameiningu á að vera að tryggja fjölbreytni og auka sjálfstæði grunneininganna og rannsóknarsviðsins. Fámennið er einn helsti veikleiki skólastigs okkar og gæti slík sameining orðið til að efla enn frekar þá góðu skóla sem eru á háskólastigi og skjóta enn frekari stoðum undir það öfluga og fjölbreytta nám sem er á íslenskum háskólamarkaði. Í þessu ljósi og að fram komnum þessum vel rökstuddu og athyglisverðu hugmyndum frá rektorum þessara tveggja ríkisháskóla beini ég þeirri fyrirspurn til menntmrh. hvort í undirbúningi sé að sameina alla ríkisháskólana innan einnar stofnunar undir nafni Háskóla Íslands þar sem skólar og deildir geta haldið sjálfstæði sínu. Ég skora um leið á hann að beita sér fyrir umræðum um slíka sameiningu til að efla enn frekar háskólakerfið séu áætlanir um það ekki nú þegar farnar af stað.