Sameining ríkisháskólanna

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:38:57 (1955)

2003-11-19 15:38:57# 130. lþ. 31.5 fundur 103. mál: #A sameining ríkisháskólanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég held að menn þurfi að skoða það ákaflega vel áður en þeir ráðast í að sameina alla háskóla sem reknir eru af ríkinu í eina stofnun. Ég er þeirrar skoðunar, reyndar er það stefna Samf., að það eigi að ýta undir samkeppni á háskólastigi. Ég tel að þróun síðustu ára hafi sýnt að það leiði til aukins námsframboðs og vandaðra náms en áður. Ég gæti rakið mörg dæmi því til stuðnings. Þess vegna held ég að menn eigi að fara sér ákaflega hægt í þessum efnum.

Ég er alveg sammála því sem hæstv. menntmrh. sagði áðan, að það var góð stefna á sínum tíma að láta Háskólann á Akureyri vera sjálfstæða háskólastofnun fremur en undir Háskóla Íslands. (Gripið fram í.) Ég var ekki þeirrar skoðunar á sínum tíma en tel að þetta sé lykilatriði í hinni ágætu þróun þess háskóla.

Svo tek ég auðvitað undir hvert orð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um þær skólastofnanir sem eru undir landbrn.