Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:45:44 (1959)

2003-11-19 15:45:44# 130. lþ. 31.6 fundur 106. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Krafan um ábyrgðarmenn á námslánum samræmist að mínu mati ekki ákvæðum laganna um jafnrétti til náms. Það er vitað um mörg dæmi þess að ungt og efnilegt fólk hafi orðið að hverfa frá fyrirætlunum sínum um frekara nám vegna þess að það hefur ekki getað framvísað ábyrgðarmönnum sem lánasjóðurinn tekur gilda. Það gefur augaleið að aðgengi námsmanna að ábyrgðarmanni á námslán sín er mjög misjafnt. Margir eiga einfaldlega ekki kost á því að fá til uppáskrifta á námslán sín einstaklinga sem hafa fjárhagslega burði til að standa undir slíkum ábyrgðum og til eru sorgleg dæmi þar sem aldrað fólk og foreldrar námsmanna verða fyrir eignamissi vegna slíkra uppáskrifta. Vegna þessa og vegna þess að krafan um ábyrgðarmenn á námslán brýtur svona gegn jafnrétti til náms brýtur hún einnig gegn því meginhlutverki Lánasjóðs íslenskra námsmanna að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggir öllum fjárhagslegt aðgengi að námi óháð efnalegri stöðu viðkomandi eða þeim sem að honum standa. Í því ljósi er afar brýnt að endurskoða lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna með það fyrir augum að afnema ákvæði um ábyrgðarmenn á námslán. Hver námsmaður á sjálfur að vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu síns láns og á að undirrita skuldabréf þess efnis. Stjórn sjóðsins ákveður síðan hvaða skilyrðum lántakandi þarf að fullnægja til að hann fái lán frá sjóðnum.

Ábyrgðarmannakvöðin er óréttlát. Hún mismunar og vinnur gegn meginhlutverki sjóðsins sem er að vera félagslegur jöfnunarsjóður til að tryggja aðgang að framhaldsmenntun á Íslandi. Vegna þessa og í þessu ljósi beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. menntmrh., um leið og ég hvet hann eindregið til að beita sér fyrir slíkri réttlætisbreytingu, hvort í undirbúningi sé breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem feli í sér afnám ákvæða um ábyrgðarmenn á námslánum.