Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 15:48:08 (1960)

2003-11-19 15:48:08# 130. lþ. 31.6 fundur 106. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[15:48]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er markmið ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að Lánasjóður íslenskra námsmanna gegni áfram því meginhlutverki að tryggja öllum tækifæri til náms. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí sl. verður jafnframt hugað að því að lækka endurgreiðslubyrði námslána og endurskoða lög um sjóðinn. Sú vinna er ekki hafin og ljóst er að huga þarf að mörgu í þessu sambandi.

Eitt af því sem væntanlega kemur til athugunar er ákvæði laga um ábyrgðarmenn námslána. Áður en vinnu við þessa endurskoðun lýkur er ekki hægt að segja til um niðurstöðuna. Burt séð frá kostum og göllum er ljóst að ákvæði um ábyrgðarmenn námslána hefur mikla og víðtæka þýðingu fyrir námslánakerfið. Bæði með tilliti til útlána og endurgreiðslna hefur krafan um ábyrgðarmenn haft í för með sér ákveðið aðhald.

Bent hefur verið á að afnám ábyrgðarmannakerfisins geri óhjákvæmilegt að aðgreina styrktarþátt kerfisins að einhverju leyti frá lánaþættinum. Eftirspurn eftir námsaðstoð í formi styrkja muni þá aukast nema reglur sjóðsins um styrkveitingar verði samtímis hertar svo sem hvað varðar hámarkstíma aðstoðar og lágmarkstíma námsframvindu.

Óbreytt ábyrgðarmannakerfi torveldar alltaf einhverjum að fá notið þeirrar aðstoðar sem er í boði hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og í einstaka tilvikum kann það að útiloka menn frá því að fá námslán. Þetta er þó erfitt að sannreyna þar sem ákvörðun um töku námslána er oft byggð á mörgum öðrum forsendum. Óhjákvæmilegt er í umræðu um ábyrgðarmenn á námslánum að hafa í huga að núgildandi löggjöf byggir á því að námsaðstoð skuli vera í formi lána en ekki styrkja og þess vegna eru ákvæði í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna um ábyrgðarmenn.

Í dag eru útistandandi lán sjóðsins á bilinu 50--60 milljarðar kr. Því er hér um að ræða gífurlegar fjárhæðir sem tryggja þarf með ákveðnum hætti að skili sér til baka. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um það með hvaða hætti megi bregðast við þeim vandamálum sem ábyrgðarmannakerfið vissulega skapar. Í því sambandi hefur t.d. verið bent á að í stað þess að afnema ákvæði í lögum um ábyrgðarmenn mætti stofna ábyrgðardeild við sjóðinn sem væntanlegir lánþegar gætu leitað til við vissar aðstæður. Væntanlega þyrfti þá að setja í lög sérstakar heimildir í því sambandi.

Meðan hluti námsaðstoðar er í formi lána þarf alltaf einhver að axla hina fjárhagslegu ábyrgð. Enn önnur hlið á þessu ábyrgðarmannakerfi er sú að á hverju ári leita til sjóðsins einstaklingar sem eru til gjaldþrotameðferðar og teljast af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggir lántakendur. Þessir einstaklingar geta fengið námslán með tilstyrk ábyrgðarmanna. Með afnámi ábyrgðarmannakerfisins væri væntanlega ekki hægt að veita þessum einstaklingum námslán. Hér er því um að ræða mál sem hefur mjög margar hliðar og þarf að vega og meta heildstætt.

Ég vil geta þess vegna þessarar umræðu, sem er nauðsynleg og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir, að ábyrgðarmannakerfið hefur verið hér við lýði nánast frá upphafi. Mig minnir að elstu lög hafi krafist tveggja ábyrgðarmanna og hingað til hefur verið nokkuð breið pólitísk samstaða um málið. Heilmiklar breytingar hafa verið gerðar á kjörum námsmanna og er raunar verið að vinna að breytingum á hverju ári. Það er rétt að minna á að grunnframfærslan hefur verið hækkuð nokkur ár í röð. Framfærslugrunnurinn er nú talsvert hærri en hann var fyrir tveimur árum. Afnumin hefur verið tenging við tekjur maka, það var gert árið 2002, og tekjutengingin var lækkuð úr 40% í 35%. Allt eru þetta dæmi um að stjórnvöld vilja bæta stöðu námsmanna enda er mikilvægt að um leið og við stöndum vörð um lánasjóðinn sjálfan og gætum þess að fjárhag hans sé ekki stefnt í voða stígum við jafnt og þétt skref í þá átt að bæta stöðu námsmanna að því er varðar lánin og lánakjörin.