Sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:19:26 (1973)

2003-11-19 18:19:26# 130. lþ. 31.8 fundur 151. mál: #A sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:19]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Mikilvægt er að hafa á hverjum tíma þá heilbrigðis- og félagsþjónustu sem kröfur tímans kalla eftir og þær eru breytilegar. Við hér í þessum sal þekkjum það öll, held ég, að það má að mörgu leyti bæta bæði heilbrigðis- og félagsþjónustuna í landinu. Þjóðfélagið hefur tekið breytingum á undanförnum árum, áherslur hafa breyst og þeim breytingum verðum við að fylgja eftir með breyttri þjónustu.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga hvað varðar heilbrigðisþjónustuna að þá ráði fjárhagur einstaklingsins eða fjölskyldunnar aldrei ferð, þ.e. að ef einstaklingur þarf á ákveðinni þjónustu að halda, þá velji hann ekki eingöngu út frá því hvort til endurgreiðslu komi frá Tryggingastofnun ríkisins eða ekki, heldur hafi möguleika á að fara til þeirra sérfræðinga sem gagnast honum sem best.

Eins verður að gæta þess að samhæfing og samstarf sé alltaf til staðar, bæði á milli stofnana og eins innan stofnana, þannig að fagteymi séu sterk og þau skili hvað mestu. En í þeirri teymisvinnu þarf að hafa í huga að sérfræðingarnir, einstaklingarnir sem þar sinna þeirri þörf sem sjúklingahópurinn hefur. Þegar við lítum til heilsugæslunnar er orðin sterk krafa og mikil þörf á að fjölga þar starfsstéttum og þá ekki síst sálfræðingum. Komið hefur fram að álag á lækna er mikið í viðtalstímum og mikill hluti af þeirra tíma fer í andlega aðhlynningu og sálfræðiráðgjöf sem væri betur komin í höndum sálfræðinga ef þeir væru til staðar.

Með tilliti til þessa höfum við hv. þm. Margrét Frímannsdóttir lagt fram eftirfarandi fsp. til hæstv. heilbrrh.:

1. Hafa einhverjar heilsugæslustöðvar heimild fyrir fastri stöðu sálfræðings og ef svo er, til hve langs tíma og hvaða stöðvar eru það?

2. Ná heimildirnar til afmarkaðra verkefna eða til almennrar sálfræðiþjónustu?

3. Er á döfinni að koma á föstum stöðugildum sálfræðinga við allar heilsugæslustöðvar og ef svo er, hvenær verður af því?

4. Hefur verið gengið frá samningum við sjálfstætt starfandi sálfræðinga, sbr. ákvæði 36. og 39. gr. laga um almannatryggingar? Ef svo er, hvað fela samningarnir í sér?

5. Hvers konar fyrirkomulag verður á greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins fyrir sálfræðiþjónustu?