Sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:28:04 (1976)

2003-11-19 18:28:04# 130. lþ. 31.8 fundur 151. mál: #A sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég verð að taka undir þau orð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur að svör hæstv. ráðherra ollu mér nokkrum vonbrigðum, þ.e. að ekki skuli vera komnar í gang samningaumleitanir við sjálfstætt starfandi sálfræðinga, að koma þar á samningi sem mundi þá auðvelda almenningi eða þeim sem þurfa að leita til sálfræðinga að fá þar fyrirgreiðslu og niðurgreiðslu á þjónustu þeirra.

Eins þarf að auka og fjölga aðkomu sálfræðinga að rekstri og þjónustu heilsugæslustöðvanna, því að þó svo að heilbrrn. úthluti ekki stöðugildum þá er það alveg ljóst að ekki eru ráðnir sálfræðingar í fastar stöður eða í starfshlutföll við heilsugæslustöðvarnar nema fjármagn sé tryggt til þess að ráða sálfræðinga. Og ef við erum að tala um að styrkja heilsugæsluna, grunnþjónustuna, þá er þetta hluti af því, herra forseti.

Eins þarf að huga að því að efla sálfræðiþjónustu sálfræðinga í grunnskólunum og framhaldsskólunum og þá með þeim breytingum að þeir yrðu meira en ráðgefendur. Þetta á sérstaklega við þjónustu þeirra úti á landi og tengdu þá vinnu við heilsugæslustöðvarnar og þá starfsemi sem þar fer fram, því að það mundi létta á öllum og sérstaklega BUGL ef þeir fengju leyfi til að sinna einnig meðferð en ekki eingöngu ráðgjafarþjónustu í skólunum.