Stuðningur við krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 18:45:12 (1983)

2003-11-19 18:45:12# 130. lþ. 31.9 fundur 263. mál: #A stuðningur við krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[18:45]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er ekki þannig að ég hafi í fyrirspurn minni farið fram á aukin fjárútlát vegna hjálpartækja eða varnings sem konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein þurfa að nota. Ég mæltist frekar til þess að þær hefðu einhvern ráðstöfunarrétt á þeim fjármunum sem þegar eru veittir. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að við höfum ákveðið val. Sem betur fer ákveður ekki Hjálpartækjabankinn hvers konar hárkollu kona sem misst hefur hárið á að hafa. Sem betur fer ákveður ekki hjálpartækjanefndin hvaða brjóstastærð hentar hverju sinni. Við höfum þetta val um hvernig við viljum hafa þau hjálpartæki sem okkur standa til boða.

Hér er farið fram á að fram fari einstaklingsbundið mat á þörfinni, eins og hv. þm. sagði áðan, að viðkomandi hafi eitthvað um þá fjármuni að segja sem ætlaðir eru til hjálpartækjakaupa og annars, til að mynda til að láta tattóvera á sig augabrúnir sem skiptir verulegu máli fyrir þær konur sem missa augabrúnir og augnhár.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er einungis þessi: Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir því að reglunum verði breytt í þessa veru? Við erum ekki að tala um aukið fjármagn heldur meiri áherslu á einstaklingsbundið mat og minni forræðishyggju við ráðstöfun þeirra fjármuna sem eiga að fara í slík hjálpartæki.