Fráveituframkvæmdir sveitarfélaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:06:19 (1993)

2003-11-19 19:06:19# 130. lþ. 31.11 fundur 228. mál: #A fráveituframkvæmdir sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Nú er búið að draga það fram í umræðunni að þessar framkvæmdir séu dýrar fyrir mörg sveitarfélög og það er alveg rétt. Hægt er að nefna það hér að t.d. á Blönduósi og í Hveragerði er kostnaður á hvern íbúa mjög hár. Samt hafa menn lagt í þann kostnað og eru búnir að koma sínum málum í lag á meðan aðrir, þar sem minni kostnaður er á hvern íbúa, eru ekki búnir að því. Menn forgangsraða því misjafnlega innan sveitarfélaganna. Sumir leggja mjög mikla áherslu á skólamál en aðrir á fráveitumálin o.s.frv. Því er svolítið erfitt að færa rök fyrir því að hjálpa eigi sérstaklega þeim sem hafa mikinn kostnað þegar sumir sem hafa mikinn kostnað hafa nú þegar tekið á sínum málum, en sú umræða hefur komið upp.

Mér er ekki kunnugt um neina nýja tækni sem gæti gert þetta ódýrara. Það hefur stundum brunnið við í þessari umræðu að menn telja að við séum að gera óeðlilegar kröfur á Íslandi. Svo er ekki. Við gerum eðlilegar kröfur miðað við það sem gengur og gerist í Evrópusambandinu. Við höfum innleitt tilskipanir þaðan og höfum flokkað viðtaka okkar í samstarfi við önnur Evrópusambandslönd og EES-lönd sem síður viðkvæman viðtaka, þ.e. sjórinn. Við gerum hins vegar ákveðnar kröfur sem eru strangari hvað varðar gerlamengun. Það var gert löngu áður en þessar EES-tilskipanir komu til sögu og það orsakast af því að við erum í hörkusamkeppni við Norðmenn og aðra varðandi fiskútflutning. Við erum því að gera þetta með eðlilegum hætti. Þetta er hins vegar dýrt og sveitarfélögin standa mörg hver ekkert mjög vel fjárhagslega þannig að ég skil að áhugi sé á því að lengja í lögunum af þeirra hálfu. Það er ekki búið að taka ákvörðun um það. En ég útiloka ekki að svo verði.