Prestaköll og prestsstöður

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:08:32 (1994)

2003-11-19 19:08:32# 130. lþ. 31.12 fundur 234. mál: #A prestaköll og prestsstöður# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:08]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Í 39. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Þegar prestakall eða prestsstaða losnar eða nýtt prestakall er stofnað auglýsir biskup Íslands embættið með fjögurra vikna umsóknarfresti hið skemmsta.

Nánari reglur um val á sóknarpresti og presti skv. 35. gr., m.a. um skilyrði til almennra kosninga, skal setja í starfsreglur skv. 59. gr.``

Það er einmitt þessi grein laganna sem er tilefni þeirra tveggja fyrirspurna sem ég ætla að bera fram við hæstv. dóms- og kirkjumrh. Af lestri þessarar greinar verður ekki ráðið hversu rúman tíma biskupsembættið hefur til þess að auglýsa eftir presti ef prestsstaða eða prestakall losnar. Samkvæmt orðanna hljóðan er þetta vald í raun lagt í hendur biskups. Þó má ætla að einn tilgangurinn með þessari lagagrein sé m.a. sá að tryggja að eftir því sé farið og það sé tryggt að prestakall sé auglýst eða prestsstaða auglýst ef embætti losnar, án þess að tíundað sé í lagagreininni sjálfri hversu langur tími skuli líða frá því að staða verður laus og þar til auglýst er eftir umsækjendum um hana.

Tilefni þessarar fyrirspurnar er mál sem upp kom á Bíldudal þegar svo háttaði til að heilir ellefu mánuðir liðu frá því að prestsstarf losnaði við það að prestur lét af störfum og þar til kirkjuþing tók þá ákvörðun sem ég hef gagnrýnt, að leggja niður prestakallið á Bíldudal. Í ellefu mánuði lá sem sagt ekki fyrir hvort auglýst yrði eftir presti. Hin formlega ákvörðun um það var fyrst tekin að liðnum svo löngum tíma.

Ég tel mjög mikilvægt fyrir starfsöryggi og starfsemi prestakalla og starf í söfnuðum að þessi mál séu nokkuð skýr og mönnum nokkuð ljóst hvernig skuli að þessu staðið, a.m.k. að söfnuðunum sé þetta alveg ljóst. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. dóms- og kirkjumrh. eftirfarandi tveggja spurninga, með leyfi virðulegs forseta:

1. Hafa verið mótaðar reglur um hversu langur tími megi líða frá því að prestakall eða prestsstaða losnar og þar til biskup Íslands auglýsir embættið, sbr. 39. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar?

2. Eru dæmi um það frá gildistöku laganna 1. janúar 1998 að lengri tími en þrír mánuðir hafi liðið fram að auglýsingu? Ef svo er, hver eru þau dæmi?