Prestaköll og prestsstöður

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:11:45 (1995)

2003-11-19 19:11:45# 130. lþ. 31.12 fundur 234. mál: #A prestaköll og prestsstöður# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:11]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fyrri spurningunni, um það hvort mótaðar hafi verið reglur um hversu langur tími megi líða frá því að prestakall eða prestsstaða losnar og þar til biskup Íslands auglýsir embættið, sbr. 39. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, get ég svarað á þann veg, eftir að ráðuneytið hefur leitað upplýsinga frá biskupi, að ekki hafa verið settar reglur um þessa tímafresti.

Hins vegar er það greinilega svo samkvæmt þessu svari að ef uppi eru áform um að leggja niður prestakall eða sameina prestakall nærliggjandi prestakalli eða prestaköllum þá er staðið að málum á sérstakan hátt sem ég mun lýsa á eftir. En ef ekki er á döfinni að ganga til slíkra verka er prestsstaðan eða embættið auglýst þegar í stað og leitað eftir umsóknum eftir að prestakallið losnar.

Ef áform eru uppi um það á vettvangi kirkjunnar að sameina prestaköll þá er litið til 19. gr. laga nr. 78/1997 þar sem segir að biskupafundur skuli gera tillögur til kirkjuþings um skipan prestakalla. Tillögur biskupafundar eru bornar undir viðkomandi safnaðar- og héraðsfundi áður en kirkjuþing fær þær til umfjöllunar og ákvörðunar.

Kirkjuþing er haldið í október ár hvert og því liggur ekki fyrir endanleg niðurstaða varðandi afdrif tillagnanna fyrr en að loknu þinginu og kann það að valda því að viðkomandi prestakalli kunni að verða þjónað í aukaþjónustu í nokkurn tíma. Ef kirkjuþing hafnar sameiningu þar sem prestakall er laust, er það auglýst eins fljótt og kostur er. Það er þetta ferli sem um er að ræða og snertir fyrirspurn hv. þm.

Ef litið er á þetta frá 1998, hvernig þessu er háttað varðandi þá skipan ef ætlunin er að sameina prestaköll, þá má nefna að í Bólstaðarhlíðarprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi sagði prestur lausu starfi sínu 30. júní árið 2000. Það var sameinað Þingeyrarklausturs- og Skagastrandarprestakalli 1. janúar 2001 og liðu þarna sex mánuðir.

Í Bergþórshvolsprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi sagði prestur lausu starfi sínu 31. maí 1997. Það var sameinað Holtsprestakalli 17. mars 1999. Þarna liðu tuttugu og einn og hálfur mánuður.

Í Prestsbakkaprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi sagði prestur starfi sínu lausu 1. nóvember 2002. Það var sameinað Melstaðar- og Hólmavíkurprestakalli 1. janúar 2004 og liðu 14 mánuðir.

Hv. fyrirspyrjandi nefndi Bíldudalsprestakall í Barðastrandarprófastsdæmi. Þar sagði prestur lausu embætti sínu 1. nóvember árið 2002. Þetta prestakall verður sameinað Tálknafjarðarprestakalli frá 1. janúar næstkomandi og því líða 14 mánuðir án þess að þarna sé starfandi prestur.

Í Desjamýrarprestakalli í Múlaprófastsdæmi sagði prestur lausu starfi sínu 1. mars 1998. Það var sameinað Eiðaprestakalli 1. janúar árið 2000. Þar liðu 22 mánuðir.

Í Vatnsfjarðarprestakalli í Ísafjarðarprófastsdæmi sagði prestur lausu starfi sínu 1. ágúst 1999. Það var sameinað Staðarprestakalli 1. janúar 2000 og liðu fimm mánuðir.

Þetta er sú lýsing sem ég fæ frá Biskupsstofu um þetta mál. Þá er þess að geta að Þingvallaprestakall í Árnesprófastsdæmi hefur verið laust frá 15. maí árið 2000 þegar sóknarpresturinn lést. Það starf hefur ekki verið auglýst.