Prestaköll og prestsstöður

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:17:40 (1997)

2003-11-19 19:17:40# 130. lþ. 31.12 fundur 234. mál: #A prestaköll og prestsstöður# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:17]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dóms- og kirkjumrh. fyrir afar skýr og greinargóð svör við spurningum mínum, sem hafa varpað góðu ljósi á þetta mál sem ég var að leita eftir að væri skýrt. Starf prests í söfnuðum landsins er auðvitað mjög mikilvægt og söfnuðirnir gera miklar kröfur til þessara þjóna sinna sem eðlilegt er. Í mörgum byggðarlögum er það þannig að staða prestsins er mikilvæg líka í byggðalegu tilliti.

Þess vegna er að mínu mati ákaflega mikilvægt hvernig staðið er að ráðningu presta og hvernig staðið er að því að breyta skipan prestakalla. Það er ákaflega mikilvægt að það sé vel að því máli staðið og kynningin á slíkum málum gagnvart söfnuðinum sé nægilega mikil og gerð með þeim hætti að það þurfi ekki að valda óróa eða misskilningi eða hreinlega tortryggni gagnvart kirkjunni. Ég tel að það dæmi sem ég nefndi varðandi Bíldudalssókn sé því miður ekki dæmi um það. Ég tel að þar hafi ekki verið eðlilega að málum staðið og ákaflega óheppilega að verki farið í þeim efnum. Þetta er viðkvæmt mál og vegna stöðu kirkjunnar verður hún að ganga fram af mikilli vandvirkni.

Því velti ég því fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegt að setja um þetta tilteknar reglur, a.m.k. að kirkjunni sé það ljóst að þegar hún gengur til verka í þessum efnum, verði hún að stíga mjög varlega til jarðar og gera þessa hluti í góðri sátt og samkomulagi við íbúana og sóknirnar í landinu. Þess vegna hreyfði ég þessu máli og velti því fyrir mér hvort ekki þyrfti með einhverjum hætti að skýra málin. Það hefur komið fram í máli og svari hæstv. dóms- og kirkjumrh. að það er oft langur tími sem líður frá því að prestakall losnar og þar til prestur er ráðinn og sá tími verður a.m.k. í framtíðinni að vera nokkuð ljós fyrir söfnuðina í landinu.