Prestaköll og prestsstöður

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:19:55 (1998)

2003-11-19 19:19:55# 130. lþ. 31.12 fundur 234. mál: #A prestaköll og prestsstöður# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:19]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda um nauðsyn þess að þessar reglur séu skýrar og ljósar og tel raunar að svo sé í stórum dráttum, að leikreglurnar sem kirkjan hefur sett sér um þetta efni séu ljósar. En að sjálfsögðu má alltaf betur gera. Ég þekki ekki nægilega vel hvernig samráði er háttað við söfnuði um þessi mál, en það kemur fram í svarinu sem ég las að tillögur séu bornar undir viðkomandi safnaðar- og héraðsfundi, það er því kynning á heimavettvangi þegar þetta ferli fer af stað, þegar menn taka ákvarðanir um að sameina prestaköll. Og um það snýst þetta mál fyrst og fremst eins og fram hefur komið. Það er kirkjunnar að setja sér þessar starfsreglur.

Í málinu sem um er að ræða nefndi hv. fyrirspyrjandi sérstaklega Bíldudalsprestakall. Það urðu um þetta opinberar umræður nýlega og það hafa verið umræður um þessi mál. Það hlýtur að vera svo að á vettvangi kirkjunnar átti menn sig vel á nauðsyn þess að ganga þannig fram í þessum málum, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, að tekið sé ríkt tillit til hagsmuna þeirra sem eiga þarna mest í húfi. Hins vegar er sjónarmið sem líka verður að viðurkenna að það kunna að vera mjög málefnalegar ástæður fyrir því að sameina prestaköll þegar til þess verks er gengið.