Miskabætur til þolenda afbrota

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:27:19 (2001)

2003-11-19 19:27:19# 130. lþ. 31.13 fundur 267. mál: #A miskabætur til þolenda afbrota# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:27]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hlýt þó að mótmæla því mati hans að lögin hafi komið að fullu til framkvæmda, vegna þess að það var sett á ákveðið skerðingarákvæði, breyting á frv., sem segir síðan í umsögn allshn. Alþingis sem er dags. 15. desember 1995, um sama frv. og meiri hluti allshn. Alþingis setti hér fram undir forustu fyrrv. dómsmrh., hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Hins vegar er gert ráð fyrir að gildistökunni verði frestað fram á mitt næsta ár og að ríkissjóður greiði einungis helming bóta ásamt frekari skerðingum. Meiri hluti allshn. telur að hér sé um að ræða mjög miklar skerðingar frá því sem lögin gera ráð fyrir. Meiri hlutinn mælist því eindregið til þess að við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1997 verði miðað við að bætur verði greiddar til samræmis við það sem upphaflega hafði verið ákveðið.``

Mér heyrist, virðulegi forseti, að vilji hæstv. dómsmrh. til þess að færa lögin í upprunalegt horf og miðað sé við 1 millj. kr., sé ekki til staðar, enda sjást þess engin merki í frv. til fjárlaga. Hér hefur Samf. aftur flutt frv. sem vonandi fær eðlilega og góða umfjöllun og sá meiri hluti sem ég er sannfærð um að var til staðar á sínum tíma þegar lögin voru afgreidd, verði til staðar til að ná fram réttlæti í þessum efnum.