Afdrif hælisleitenda

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:39:37 (2006)

2003-11-19 19:39:37# 130. lþ. 31.14 fundur 316. mál: #A afdrif hælisleitenda# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁI
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:39]

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka dómsmrh. kærlega fyrir skýr svör. Ég hlýt þó að gera alvarlegar athugasemdir við það sem fram kom í máli hans hvað varðar afstöðuna til hælisleitenda sem eru börn. En í máli hæstv. ráðherra kom fram að niðurstaða í máli þeirra ráðist alla jafna af niðurstöðu í máli foreldra, ef ég hef heyrt rétt.

Ég vil vekja athygli ráðherra á 22. gr. í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar eru aðilar að þar sem aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir, með leyfi forseta, ,,til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum`` o.s.frv., fái viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð.

Ég legg mikla áherslu á að það verður að meta sjálfstætt hag barna og foreldra. Það er því miður þannig að hælisleitendur sem eru kannski búnir að vera á flakki landa í milli, fullorðið fólk sem hefur upplifað skelfilegar hörmungar, á sér kannski ekki viðreisnar von andlega eða líkamlega, en börnin eru þeirrar gerðar að þau geta aðlagað sig mun betur og raunar erfiðustu aðstæðum. Þess vegna er vonin fólgin í þeim og það á að leyfa þeim að fá von og möguleika á lífi, nýju lífi óháð því hvort hægt sé að hjálpa foreldrunum mikið.

Ég tel mjög mikinn og alvarlegan misskilning að halda því fram að við megun ekki taka við hælisleitendum og veita þeim hér skjól, hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum þrátt fyrir aðild okkar að Dyflinnarsamningnum. Samningurinn þýðir í mínum augum aðeins það að við þurfum ekki lengur að taka afstöðu til umsókna þeirra sem koma hingað frá öðru aðildarlandi Schengen, en þannig er það auðvitað alla jafna vegna legu landsins. En við eigum, Íslendingar, að gera miklu betur á þessu sviði. Við eigum að leggja okkar fram til þess að hjálpa þessu fólki sem er í neyð og veita þeim hæli hér af mannúðarástæðum.