Afdrif hælisleitenda

Miðvikudaginn 19. nóvember 2003, kl. 19:41:54 (2007)

2003-11-19 19:41:54# 130. lþ. 31.14 fundur 316. mál: #A afdrif hælisleitenda# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 130. lþ.

[19:41]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki í þessum ræðustól að fjalla um mál einstaklinga sem eru að sækja hér um hæli. Ég geri það ekki, bæði af tilliti til þeirra sem hlut eiga að máli og einnig vegna þess að þetta málefni er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og viðkomandi hafa rétt til þess að kæra það til dómsmrn. og með yfirlýsingum mínum hér um einstök efnisatriði í slíkum málum, væri ég að ganga á svig við stjórnsýslureglur og þá aðferð sem ber að viðhafa í málum af þessum toga.

Ég sagði í svari mínu að þau börn sem leitað hafa hælis hér hafi öll verið í fylgd með foreldrum sínum og niðurstaða í málum þeirra ráðist af niðurstöðu í málum foreldranna. Það hefur ekki verið farið út á þá braut hér, ef það var það sem hv. fyrirspyrjandi átti við, að skilja á milli hagsmuna foreldra og barna þegar tekin er afstaða í málum af þessum toga, því það hefur ekki verði talið skynsamlegt og ég trúi því ekki að gert sé ráð fyrir því í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að þannig sé staðið að verki að yfirvöld taki á málefnum barna á annan veg heldur en foreldra þeirra, þegar um börn yngri en 16 ára er að ræða. Ég trúi því ekki að hv. fyrirspyrjandi hafi átt við það. En að sjálfsögðu ber að taka afstöðu til hagsmuna barna á grundvelli þeirra alþjóðasamninga sem við höfum gert og taka afstöðu til þessara mála á grundvelli skýrra lagareglna. Þær liggja fyrir nýsamþykktar, ný reglugerð, og við vinnum nákvæmlega í samræmi við þá sáttmála sem við höfum gengist undir og ég tel að málsmeðferð hér varðandi þennan málaflokk sé til fyrirmyndar og vel að verki staðið af þeim embættismönnum sem að þessu koma.