Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 13:39:19 (2019)

2003-11-25 13:39:19# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. meiri hluta MS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 kemur nú til 2. umr. á Alþingi. Samkvæmt starfsáætlun þingsins er gert ráð fyrir því að þessi umræða fari fram einmitt í dag og því ljóst að okkur hefur tekist að halda áætlun.

Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á þeirri breytingu sem nú er orðin frá undangengnum árum varðandi framvindu við vinnslu fjárlagafrv. í fjárln. og á Alþingi að nú við 2. umr. koma allir þættir frv. til umræðu með þeim brtt. sem tilheyra. Fram til þessa hefur aðeins gjaldahluti frv. og brtt. sem honum tengjast komið til 2. umr. en tekjuhlutinn ásamt heimildagreinum, lánsfjárlögum og öðrum þáttum frv. beðið til 3. umr. Þetta er ánægjuleg þróun því að það hlýtur að teljast til bóta að 2. umr. um frv. geti farið fram með þessum hætti. Þar með má segja að við séum á undan áætlun við vinnslu frv. miðað við þær forsendur sem lágu að baki starfsáætlun þingsins. Í þessu birtist að sú þróun heldur áfram að vinnsla fjárlagafrv. er að færast framar í tíma en áður var og það er til bóta fyrir alla aðila, t.d. er varðar stofnanir ríkisins og aðra þá sem þurfa að gera rekstraráætlanir fyrir næsta ár, einnig er varðar þá fjölmörgu sem njóta framlaga úr ríkissjóði. Þetta skiptir ekki síst máli varðandi efnahagskerfið því að fjárlög ríkisins spila stórt hlutverk í því samhengi og því mikilvægt að vel gangi að ljúka vinnslu fjárlagafrv.

Það er mikilvægt að áfram takist að halda góðum og traustum tökum á ríkisfjármálunum. Það hefur gengið vel á undanförnum árum. Miðað við útlit næstu ára ef litið er til efnahagskerfisins með fyrirsjáanlegri þenslu vegna stórframkvæmda og aukinna umsvifa í atvinnulífinu er mikilvægt að ríkisfjármálin leggi sitt af mörkum til þess að viðhalda efnahagslegum stöðugleika.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram langtímamarkmið sín varðandi ríkisfjármálin á næstu árum og það er ljóst að sú stefna sem þar birtist og það að henni verði fylgt eftir mun hafa afgerandi þýðingu fyrir þróun efnahagslífsins. Það varðar því framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að vel takist til í þessum efnum.

Ljóst er að við Íslendingar eigum mikla möguleika á að sækja fram á næstu árum með það að markmiði að treysta efnahagslega stöðu okkar. Við höfum ýmsa möguleika á að halda áfram við að efla og byggja upp atvinnulífið og treysta innviði samfélagsins á mörgum sviðum, halda uppi hagvexti og auka kaupmátt almennings. Afrakstur alls þessa getum við nýtt til að treysta velferð þjóðarinnar og sækja fram í samfélagi þar sem þekking og færni skiptir sköpum. Við erum á þessari braut og á henni verðum við áfram ef vel er haldið á málum. Auk alls þessa þurfum við að hlúa að þeim traustu stoðum sem menning okkar og búseta í landinu öllu hafa skapað í gegnum tíðina.

Við umfjöllun fjárln. um frv. til fjárlaga hafa nefndinni borist fjölmörg erindi um fjárframlög til ýmissa verkefna á vegum einstaklinga, félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana og hefur svo verið fjöldamörg undanfarin ár. Það er ljóst að því miður er ekki mögulegt að verða við nema hluta þessara erinda. Það kemur því í hlut fjárln. að forgangsraða, velja og hafna. Við slíkar aðstæður verður ekkert hafið yfir gagnrýni. Það er ljóst að um allt land er unnið að mörgum mjög athyglisverðum verkefnum sem vert væri að styðja við.

Við afgreiðslu erinda að þessu sinni hefur sérstaklega verið litið til ákveðinna þátta. Svo dæmi séu tekin er líkt og undanfarin ár lögð áhersla á endurbyggingu og varðveislu gamalla húsa og uppbyggingu safna. Slík verkefni falla vel að menningartengdri ferðaþjónustu sem lögð hefur verið mikil áhersla á að undanförnu. Þá er lögð áhersla á varðveislu gamalla báta en það er ljóst að við verðum að leggja okkur fram um varðveislu þessa menningararfs okkar. Fram að þessu höfum við glatað of miklu af honum. Það er ljóst að enginn vafi er á því að fjárveitingar til þessara málaflokka hafa orðið hvatning og lyftistöng fyrir félög, byggðir og sveitarfélög um allt land. Það hefur verið ánægjulegt að fá vitnisburð um þetta í fjölmörgum heimsóknum til nefndarinnar á síðustu vikum.

Auk þess má nefna að lögð er áhersla á íþrótta- og æskulýðsmál en reynsla og rannsóknir sýna að heilbrigð og fjölþætt starfsemi og tækifæri sem bjóðast börnum og unglingum er ein besta forvörnin gegn vímuefnum og óæskilegu líferni.

Varðandi vinnulag við umfjöllun um hin fjölmörgu erindi sem berast í fjárlagagerðinni tel ég mikilvægt að úr verði bætt. Þar á ég m.a. við umfjöllun og ákvarðanir sem tengjast safnamálum, endurbyggingu og varðveislu gamalla mannvirkja, fornminja o.fl. Ég tel að í umfjöllun um bætt verklag eigi sérstaklega að fjalla um þessi atriði þar sem litið verði til þess hvernig megi ná sem bestu samstarfi við hina ýmsu fagaðila sem málum tengjast þannig að sem best takist til við ráðstöfun fjármuna og afgreiðslu erinda sem berast. Verkferli og öll vinnubrögð varðandi vinnslu og umfjöllun um fjárlagafrv. hvers árs eru hlutir sem þurfa að vera í sífelldri endurskoðun. Við hljótum alltaf að stefna að því marki að vinnubrögð og verkferlar séu sem markvissastir og faglegastir. Þar má alltaf gera góða hluti betur.

Eins og ég kom að við 1. umr. um fjárlagafrv. hefur fjárln. sett af stað verkefni sem miðar að því að greina þessi þætti, hvað er vel gert og hvað má gera betur. Í framhaldi af því mun fjárln. fjalla um það hverju þarf að breyta til að ná settu marki og síðan að koma því til framkvæmda. Sú vinna er þegar hafin. Og ég er þess fullviss að þegar umfjöllun hefst um fjárlagafrv. fyrir árið 2005, þá muni verkferlar og vinnubrögð taka einhverjum breytingum frá því sem nú er. En fjárln. hefur ekki einungis það verkefni að fjalla um fjárlagafrv. Það er ekki síður mikilvægt verkefni nefndarinnar að halda uppi aðhaldi og eftirliti með framkvæmd fjárlaga hverju sinni. Ég legg áherslu á þennan þátt og mun fylgja því eftir að fjárln. láti til sín taka á þessum sviðum.

[13:45]

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera grein fyrir nál. meiri hluta fjárln. Um er að ræða gróft yfirlit yfir helstu þætti en að öðru leyti vísa ég til þingskjala þar sem fram kemur ítarlegt nál. og brtt.

Störf og verklag fjárln. Alþingis við vinnslu og afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnu sniði. Nefndin hóf störf 25. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi, dags. 8. október sl., óskaði nefndin eftir álitum annarra fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum.

Fulltrúar frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum. Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 282.021,3 millj. kr. sem er 2,6 milljarða kr. hækkun frá frumvarpinu.

Spá um þjóðhagsforsendur er óbreytt. Spáð er að hagvöxtur verði um 3,5% á árinu 2004 og verðbólgan um 2,5%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann er talinn munu aukast um allt að 2,5%. Enn fremur er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist um 3,5%. Spáð er minnkandi atvinnuleysi eða um 2,5%. Hins vegar er gert ráð fyrir að viðskiptahalli verði nálægt 3,25% af landsframleiðslu.

Helstu breytingar á tekjuáætluninni eru að eignarskattar hækka um 450 millj. kr., eignarskattar lögaðila hækka um 250 millj. kr. og stimpilgjöld um 200 millj. kr. Skattar á vöru og þjónustu hækka um 1.894,6 millj. kr. Þar af nemur hækkun á virðisaukaskatti vegna aukinnar innheimtu 2 milljörðum kr., vörugjald af innfluttum ökutækjum 250 millj. kr., og gert er ráð fyrir að úrvinnslugjöld lækki um 280 millj. kr. í kjölfar endurmats á tekjum og gjöldum sem renna til Úrvinnslusjóðs. Sjóðurinn tók til starfa á yfirstandandi ári og var talsverð óvissa í fyrstu áætlunum um starfrækslu sjóðsins. Ýmsar tekjur hækka um 101,7 millj. kr. en þar vegur þyngst 5% hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins frá 1. jan. 2004 og er áætlað að tekjur af útvarpsgjaldi aukist um 110 millj. kr. Aðrar eigna- og aukatekjur aukast um 150 millj. kr. vegna endurskoðaðrar áætlunar.

Tekjujöfnuður verður 6.770,9 millj. kr., sem er aukning um 380,9 millj. kr.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 2.215,4 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2.

Í nefndaráliti er fyrst gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á sundurliðun frumvarpsins. Síðan er gerð grein fyrir breytingum sem lagt er til að verði gerðar á 5. gr. frumvarpsins, um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir.

Meiri hluti fjárln. þakkar fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytis. Einnig hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera grein fyrir helstu brtt. eftir málaflokkum er varða sundurliðun 2. Það verður gróft yfirlit yfir helstu liði en að öðru leyti vísast til þingskjala þar sem gerð er ítarleg grein fyrir brtt. og skýringum við þær.

Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 73,8 millj. kr. frá frv. Meginhluti aukinna heimilda eru til Alþingis, m.a. starfsemi þingsins, rekstur fasteigna, tækja og búnaðar. Auk þess er gert ráð fyrir fjárheimild til þess að Ríkisendurskoðun færi hluta af starfsemi sinni til Akureyrar.

Gerð er tillaga um að fjárheimild forsrn. aukist um 41 millj. kr. og er þar um að ræða aukna fjárheimild vegna 100 ára afmælis heimastjórnar á Íslandi og vegna norrænu ráðherranefndarinnar, en Ísland mun veita henni forstöðu á næsta ári.

Tillaga er um að fjárheimild menntmrn. verði aukin um 1.060,5 millj. kr. Lagt er til að fjárveiting til reksturs framhaldsskóla aukist um 600 millj. kr. Skýringar á því eru annars vegar að spár um nemendafjölda skólanna hafa verið endurskoðaðar og gera þær ráð fyrir fleiri nemendum en áður. Hins vegar er miðað við að framlag á hvern nemanda verði hærra en gert var ráð fyrir. Menntmrn. áformar að gera samninga við skólana um hámarksframlög og hámarksfjölda ársnemenda sem hverjum skóla verður greitt fyrir þannig að útgjöld framhaldsskólanna árið 2004 verði í samræmi við fjárheimildir þeirra samkvæmt fjárlögum. Miðað er við að ráðuneytið skipti fjárveitingu á milli skólanna í samræmi við samninga.

Varðandi Ríkisútvarpið, þá hefur verið samþykkt 5% hækkun afnotagjalda frá 1. jan. 2004, sem gert er ráð fyrir að skili auknum tekjum að fjárhæð 110 millj. kr. og hækkar framlag til Ríkisútvarpsins um sömu fjárhæð. Að öðru leyti felast í aukinni fjárheimild til menntmrn. ýmis tímabundin framlög til margra ólíkra verkefna. Þar má m.a. nefna rannsóknarverkefni, safnamál, uppbyggingu og vernd gamalla húsa, ýmis mál á sviði lista og menningar, æskulýðs- og íþróttamál og verkefni á sviði fornleifarannsókna.

Lagt er til að fjárheimild utanrrn. verði aukin um 68,3 millj. kr. Um er að ræða verkefni á sviði útflutnings- og markaðsmála erlendis og starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Lagt er til að fjárheimild landbrn. verði lækkuð um 29,6 millj. kr. Um er að ræða ýmis verkefni sem tengjast m.a. skógræktarmálum, auknar fjárheimildir til Veiðimálastofnunar, yfirdýralæknis og Háskólans að Hólum. Auk þess er um að ræða breytingar á fjárheimildum varðandi Búnaðarsjóð og Lánasjóð landbúnaðarins og koma þær til vegna breytinga á áætlunum um búnaðargjald, þar sem gert er ráð fyrir að tekjur af búnaðargjaldi verði lægri en áætlað var. Nánar verður gerð grein fyrir þessum þáttum síðar.

Lagt er til að fjárheimild sjútvrn. verði aukin um 32,4 millj. kr. og snýr það eingöngu að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, en unnið hefur verið að endurskipulagningu stofnunarinnar vegna viðvarandi rekstrarerfiðleika hennar. Í framhaldi af úttekt Ríkisendurskoðunar er unnið að breytingum á starfseminni og er tillagan komin fram á þeirri forsendu.

Varðandi dóms- og kirkjumrn. er lagt til að fjárheimild ráðuneytisins verði lækkuð um 125,1 millj. kr. Gert er ráð fyrir tímabundinni fjárheimild til að standa undir kostnaði sem til fellur ef til koma forsetakosningar á næsta ári. Tekin hefur verið ákvörðun um tilflutning verkefna á milli ráðuneyta og færast umferðarmál og umferðaröryggismál frá dómsmrn. til samgrn. Málefni sem fallið hafa undir samgrn. og tengjast leit og björgun flytjast þaðan til dómsmrn. Þá er tillaga um 20 millj. kr. tímabundna fjárheimild til að stækka og efla björgunarbátaflota Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Lagt er til að 12,3 millj. kr. fjárveiting verði millifærð af stofnkostnaði yfir á rekstur héraðsdómstóla. Héraðsdómstólarnir hafa átt við rekstrarvanda að glíma undanfarin ár en stofnkostnaður vegna tækja og búnaðar hefur hins vegar verið mun lægri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Sams konar tillaga var samþykkt eftir 2. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2003.

Gert er ráð fyrir 15 millj. kr. tímabundnu framlagi til að fjölga störfum lögreglumanna við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, en tillagan er m.a. til komin vegna verulega aukins umfangs efnahagsbrotadeildar vegna fjölgunar mála sem stofnunin hefur þurft að fjalla um og aukins umfangs hennar. Þá eru tillögur um auknar fjárheimildir til löggæslu, tollgæslu og öryggismála. Loks eru tillögur um tímabundin framlög til ýmissa mála sem falla undir verksvið dóms- og kirkjumrn.

Lagt er til að fjárheimild félmrn. verði aukin um 432,5 millj. kr. Tillögur eru um auknar fjárheimildir varðandi nokkur verkefni sem falla undir málefni fatlaðra. Lagt er til að framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs hækki um 106 millj. kr. í ljósi endurmats á kostnaði við hvert atvinnuleysisstig, en áfram er gert ráð fyrir að atvinnuleysi 2004 verði 2,5%.

Lagt er til að framlag til Fæðingarorlofssjóðs hækki um 280 millj. kr. og er það í ljósi endurskoðunar á útgjöldum sjóðsins vegna þeirrar þróunar sem verið hefur á þessu ári. Loks eru tillögur um ýmis tímabundin framlög til einstakra verkefna sem falla undir félmrn.

Tillaga er um að fjárheimild heilbr.- og trmrn. verði aukin um 361,7 millj. kr. Lögð er til 72 millj. kr. hækkun á framlagi til endurhæfingarlífeyris vegna fjölgunar bótaþega.

Undir liðnum Sjúkratryggingar er lagt til að millifærðar verði 2,3 millj. kr. til Læknavaktar ehf. vegna gjaldskrárverka sem greidd hafa verið af Tryggingastofnun, en stefnt er að nýjum samningi um vaktþjónustu þar sem greiðslur fyrir gjaldskrárverk verða innifaldar í samningsupphæð. Þá er tillaga um 238 millj. kr. hækkun á framlagi til lyfja á árinu 2004 í samræmi við endurskoðaða áætlun Tryggingastofnunar um útgjöld vegna lyfja.

Gerð er tillaga um hækkun á framlagi til Lýðheilsustöðvar og kemur það til vegna leiðréttingar á framlagi til tóbaksvarna. Þá er tillaga um tímabundið framlag til Forvarnasjóðs vegna samstarfsráðs um forvarnir.

Lögð er til hækkuð fjárheimild, 4 millj. kr., vegna styrkja til ýmissa framkvæmda þar sem um er að ræða að unnt verði að styrkja áfram kaup á tölvum og öðrum hjálpartækjum fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Lagt er til að 21 millj. kr. fjárheimild verði færð frá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi til Heilsugæslunnar í Reykjavík þar sem ákveðið hefur verið að hreyfanlegt fagteymi fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga fái aðstöðu hjá Heilsugæslunni. Þá eru tillögur um millifærslur fjárheimilda milli sviða innan Landspítala -- háskólasjúkrahúss.

Tillögur eru um ýmsar tímabundnar fjárheimildir til ýmissa verkefna þessa málaflokks og loks eru tillögur um hækkun á sértekjum og öðrum gjöldum Læknavaktarinnar ásamt tilfærslu milli liða er tengjast vaktþjónustu og er gert ráð fyrir nýjum samningi um þau mál, eins og fram hefur komið.

Lagt er til að fjárheimild fjmrn. verði aukin um 220 millj. kr. Um er að ræða leiðréttingar á kostnaðarmati á úrskurðum kjaranefndar árið 2002 um vottorð og gjaldskrárverk heilsugæslulækna.

Gerð er tillaga um að fjárheimild samgrn. aukist um 292 millj. kr. Eins og fram hefur komið liggur fyrir ákvörðun um tilfærslu verkefna milli samgrn. og dóms- og kirkjumrn. Samkvæmt því falla verkefni til samgrn. á sviði umferðarmála og umferðaröryggismála en málefni er tengjast leit og björgun færast frá samgrn. til dóms- og kirkjumrn., eins og fram hefur komið. Gerð er tillaga um færslu fjárheimilda milli ráðuneytanna í samræmi við þessa breytingu.

Í samræmi við samgönguáætlun er lagt til að framlög til reksturs Vegagerðarinnar hækki samtals um 688,3 millj. kr. á móti 627,9 millj. kr. lækkun á framkvæmdalið stofnunarinnar. Fjárheimild Vegagerðarinnar hækkar því um 60,4 millj. kr. nettó.

Gerð er tillaga um 20 millj. kr. framlag til verkefnis um líkantilraunir og grunnkort hjá Siglingastofnun. Um er að ræða leiðréttingu þar sem gert var ráð fyrir færslu fjárheimilda milli stofnkostnaðar og reksturs, en í frv. er aðeins gert ráð fyrir færslu þessarar fjárheimildar af stofnkostnaði en ekki gert ráð fyrir hækkun á rekstrarlið. Gerð er tillaga um leiðréttingu á því.

Lagt er til að fjárheimild iðnrn. verði aukin um 18 millj. kr. Tillaga er um 3 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til þátttöku Íslands, ásamt öðrum Norðurlandaþjóðum, í að gera Eystrasaltssvæðið að tilraunasvæði fyrir sveigjanleika\-ákvæði Kyoto-bókunarinnar. Þá er lögð til 15 millj. kr. hækkun á framlagi til atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni.

Í samræmi við ný lög um Orkustofnun eru tillögur um tilfærslur fjármuna milli sviða innan stofnunarinnar. Auk þess er lagt til að millifærð verði 50 millj. kr. fjárheimild frá Orkusjóði, vegna virkjanarannsókna, yfir á Orkustofnun. Er það vegna nýrra laga um Orkustofnun.

Þá er gerð tillaga um lækkun á fjárheimild viðskrn. um 8,3 millj. kr. og er það til leiðréttingar, en fjárheimild Fjármálaeftirlitsins lækkar um þessa fjárhæð.

Lagt er til að fjárheimild Hagstofu Íslands verði aukin um 28 millj. kr. og kemur það til vegna tekjutaps Hagstofunnar vegna þess að fyrirtækjaskrá var flutt til ríkisskattstjóra. Er hér um leiðréttingu að ræða þar sem láðist að gera ráð fyrir þessu í frv.

Lagt er til að fjárheimild umhvrn. verði lækkuð samtals um 249,8 millj. kr. Lagt er til að veitt verði tímabundið framlag að fjárhæð 4,5 millj. kr. vegna aðalfundar OSPAR sem verður haldinn á Íslandi á árinu 2004. Um er að ræða samningsverkefni 14 ríkja um varnir gegn mengun sjávar og verndun Norður-Atlantshafsins.

Þá er lögð til 6 millj. kr. fjárveiting vegna aukinna framlaga til alþjóðastofnana. Tillaga er um 3 millj. kr. tímabundið framlag til umhverfisverkefna í Flatey á Breiðafirði. Lagt er til að veitt verði 10 millj. kr. tímabundið framlag til þjóðgarðsins Snæfellsjökuls vegna ýmissa verkefna við uppbyggingu þjóðgarðsins.

Lögð er til 18 millj. kr. lækkun fjárheimildar til reksturs Úrvinnslusjóðs og 297 millj. kr. lækkun vegna útgjalda Úrvinnslusjóðs. Kemur þetta til vegna nýrrar áætlunar um umfang og starfsemi sjóðsins.

[14:00]

Lagt er til að sex náttúrustofur fái hver um sig 5 millj. kr. framlag vegna sérstakra rannsóknarverkefna náttúrustofanna og auk þess er lagt til að Náttúrustofa Norðausturlands fái 7,7 millj. kr. fjárheimild til rekstrar. Loks er lögð til 4 millj. kr. fjárheimild til Veðurstofunnar vegna rannsóknarmiðstöðvar snjóflóðavarna á Ísafirði.

Hæstv. forseti. Ég hef í grófum dráttum gert grein fyrir helstu brtt. er varða sundurliðun 2 í frv. til fjárlaga ársins 2004. Mun ég nú fara yfir skýringar við brtt. við sundurliðun 3, eða B-hluta frv.

Eins og fram hefur komið eykst framlag úr ríkissjóði til rekstrar Ríkisútvarpsins um 110 millj. frá því sem gert var ráð fyrir í áætlun frv. Skýrist það af því að fyrirhugað er að afnotagjöld hækki um 5% í byrjun árs 2004 eins og fram hefur komið. Gert er ráð fyrir því að afkoma Ríkisútvarpsins batni sem nemur tekjuaukanum.

Varðandi Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli hafa verið gerðar breytingar á fjárreiðum stofnunarinnar frá frv. Gert er ráð fyrir að afborganir af teknum löngum lánum verði 9,5 millj. kr. á árinu í stað 22,9 millj.

Mun ég nú fara yfir helstu skýringar við brtt. við sundurliðun 4, eða C-hluta frv. Endurskoðuð áætlun um ríkistekjur af hlutdeild Lánasjóðs landbúnaðarins í búnaðargjaldi á búvöruframleiðslu gerir ráð fyrir að tekjurnar lækki um 49 millj. kr., og lækkar framlag til rekstrar úr ríkissjóði því úr 185 millj. í 136 millj. Gert er ráð fyrir að hagnaður af rekstri Lánasjóðs landbúnaðarins minnki vegna þessa og verði 100,8 millj. Lagðar eru til nokkrar breytingar á lánsfjárheimildum Íbúðalánasjóðs frá því sem áætlað er í frv. Þar vega þyngst heimildir til að auka útgáfu húsbréfa um 2.595 millj. kr. Þá hækka útlán til leiguíbúða um 5.250 millj. og viðbótarlán um 1.000 millj. Umsóknum hefur fjölgað mikið á árinu 2003 og eftir fyrstu 10 mánuði ársins eru umsóknir orðnar fleiri en allt fyrra ár. Fátt bendir til að umsóknum muni fækka árið 2004.

Í endurskoðaðri áætlun húsbréfadeildar Íbúðalánasjóðs er gert ráð fyrir að veitt verði löng lán að fjárhæð 50.150 millj. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn taki löng lán að fjárhæð 49.650 millj. Heildarlánveitingar vegna leiguíbúða eru áætlaðar 16.500 millj., og aukast um 5.250 millj. frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Hjá Íbúðalánasjóði liggja fyrir umsóknir sem nema um 13 milljörðum kr. umfram áður útgefin lánsloforð. Þar af eru 3 milljarðar vegna leiguíbúða á Austurlandi og hefur stjórn sjóðsins óskað eftir að geta orðið við þeim umsóknum án þess að dregið verði úr öðrum lánveitingum.

Enn fremur er gert ráð fyrir að aðrir lánaflokkar hækki úr 250 millj. í 500 millj. vegna sambýla fatlaðra en búist er við umsóknum í það verkefni á næstu árum. Gert er ráð fyrir að tekin verði löng lán að fjárhæð 24.300 millj. til að fjármagna útlán. Hvað varðar viðbótarlán gerir endurskoðuð áætlun ráð fyrir að veitt verði löng lán upp á 7.000 millj. kr. Viðbótarlán eru veitt að beiðni sveitarfélaga og á ábyrgð þeirra. Gert er ráð fyrir að tekin verði löng lán að fjárhæð 10.100 millj. kr. til að fjármagna þessi útlán.

Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að framlag til Orkusjóðs frá A-hluta frv. lækki um 50 millj. til samræmis við breytt lög um sjóðinn. Önnur rekstrargjöld sjóðsins lækka jafnframt um sömu fjárhæð þar sem sjóðurinn hefur greitt styrki sem framlaginu nemur. Afkoma sjóðsins verður því óbreytt eftir þessa breytingu.

Hvað varðar brtt. við 5. gr. vísast til skýringa sem farið hefur verið yfir og tengjast Íbúðalánasjóði.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir nál. meiri hluta fjárln. en undir það skrifa Magnús Stefánsson, Bjarni Benediktsson, Drífa Hjartardóttir, Birkir Jón Jónsson, Guðmundur Hallvarðsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir.

Eins og fram hefur komið er í þessari umræðu fjallað um alla þætti frv. Nál. og brtt. gera það einnig. Það er ánægjuleg nýjung að svo sé við 2. umr. um frv. til fjárlaga og er þetta dæmi um þá framþróun sem á sér stað við vinnslu fjárlaga. Ég vil að lokum draga það fram að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að tekjujöfnun ríkissjóðs verði 6,4 milljarðar kr. en að teknu tilliti til þeirra brtt. sem fyrir liggja frá meiri hluta fjárn. er gert ráð fyrir að tekjujöfnuðurinn verði 6,8 milljarðar árið 2004.

Hæstv. forseti. Að lokum þakka ég öllu mínu samstarfsfólki í fjárln. fyrir einstaklega gott og ánægjulegt samstarf. Starfsfólki ráðuneyta og stofnana sem nefndin hefur átt samskipti við þakka ég sömuleiðis og síðast en ekki síst færi ég starfsfólki Alþingis þakkir fyrir sérlega gott samstarf og alla þá ómetanlegu hjálp sem það veitir okkur.