Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 14:05:22 (2020)

2003-11-25 14:05:22# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. og formaður fjárln., Magnús Stefánsson, hefur mælt fyrir nál. um frv. til fjárlaga við 2. umr. af hálfu meiri hluta fjárln. Ég fagna því að við 2. umr. skuli einnig koma tekjuhlið frv. Það er mjög mikilvægt að í lokaumferð fjárlaga sé hægt að taka þessa hluti saman, bæði gjöld og tekjur, þannig að ég fagna þessari breytingu. Ég hef lagt áherslu á það á undanförnum árum hér á Alþingi að þessi háttur yrði tekinn upp og ég fagna því.

Sömuleiðis vil ég líka árétta að við 2. umr. er ekki búið að loka hinum ýmsu gjaldaflokkum þannig að þeir allir liðir eru til meðferðar fyrir 3. umr. Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann og formann fjárln. er: Hvers er að vænta varðandi tillögur um niðurskurð og skerðingu atvinnuleysisbóta sem boðaðar voru í fjárlagafrv. og eru enn inni við 2. umr.? Ég veit ekki betur en að þessi fyrirætlan hafi mætt harðri andstöðu úti í þjóðfélaginu. Meira að segja framsóknarfélögum úti um allt land ofbýður framganga flokksforustunnar í Reykjavík sem er að keyra þennan níðingsskap fram gegn launþegum. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort þess sé að vænta að þetta verði tekið út úr frv.

Sömuleiðis eiga líka sjúklingar og þeir sem þurfa að leita læknis að axla hagræðinguna og niðurskurðinn í fjárlögum. Til stendur að hækka komugjöld til sérfræðilækna og ná þar inn einum 170 millj. kr. eða hvað það nú var. Er þess að vænta að af hálfu meiri hlutans komi tillaga um að þetta verði fellt út og fjárlögin þannig færð til meira mannsæmandi vegar?