Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 15:20:01 (2027)

2003-11-25 15:20:01# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er miklu stærra verkefni en ég ræð við að koma hv. þingmanni í skilning um þetta verkefni fyrst hann náði því ekki áðan. (Gripið fram í.) Hans austfirska þoka hylur honum sýn í þessu efni en allur þingheimur sem hér er skildi allt sem ég sagði áðan. Þeir sem fylgdust með umræðunni skildu það en hv. þm. einan skal ég taka í sértíma hér til hliðar á eftir og reyna að koma honum í skilning um málið.

En auðvitað er það ekki ég sem útfæri tillögur utanrrn. í þessu efni heldur þeir sjálfir sem taka við þessu erindi frá nefndinni og það er samþykkt í ríkisstjórn. Það kann vel að vera að það sé rétt sem hv. þm. segir að það að sundurliða sé ekki venjan. Aðrir standa þar í forsvari.

Ég sé hins vegar annað sem ekki nær skilningi mínum í tillögum hv. þingmanns sem hefur skilað hér miklu. Það hefur verið látið ákveðið átak til hestamennskunnar í fjárlögum síðustu árin sem hefur skilað hestamennskunni alveg gríðarlegum árangri. Í rauninni þarf að fara yfir fagmennsku hestamennskunnar. Við sjáum hrossabúgarðana og við þurfum ekki annað en fara og sjá árangurinn af þeim peningum. Ég sé að hv. þm. er 1. flm. að þeirri brtt. að 25 millj., sem hafa farið til hestamiðstöðvar í Skagafirði og átaks í hestamennsku, hinnar félagslegu heildar Landssambands hestamanna, Félags tamningamanna og Félags hrossabænda, verði felldar út. Þetta er nokkuð sem minn skilningur nær ekki. Ég botna ekki í þessum málflutningi og bið um skýringar á þessum texta og boðskap hv. þingmanns.