Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 15:25:43 (2030)

2003-11-25 15:25:43# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, m.a. varðandi þessa færslu sem er í fjárlagafrv. inn á framhaldsskólana. Það sem ég var að gagnrýna fyrst og fremst var það sem hafði komið fram í viðræðum okkar við einhvern af forsvarsmönnum skólanna að það væri erfitt að bera þá saman því að það væri mismunandi fært inn á þá. Mér heyrist hæstv. ráðherra raunverulega vera að staðfesta það en með ákveðinni skýringu. Ég þakka fyrir hana.

Það er einnig rétt hjá hæstv. ráðherra að það var settur niður starfshópur til að breyta reiknilíkaninu og það kom fram einmitt við fjárlagaafgreiðslu hér fyrir ári að ekki væri tekið að fullu tillit til þeirra breytinga sem gert var ráð fyrir í þeim tillögum sem þá lágu fyrir. Það er fagnaðarefni sem kemur fram hér hjá hæstv. ráðherra um hvernig þessar 600 millj. eru hugsaðar í skiptingu en það hafði ekki áður verið upplýst í fjárln. Það að 400 millj. af því séu til þess að gera líkanið að fullu virkt er sérstakt ánægjuefni sem við munum væntanlega fara betur yfir milli 2. og 3. umr.

Því miður held ég samt að enn liggi nokkuð utan garðs varðandi reiknilíkansmálin og það sé hluti af þeim liðum sem ég nefndi í ræðu minni að ekki hefðu verið teknir inn. Vandinn er sá að þegar verið var að endurskoða reiknilíkanið litu þeir forsvarsmenn framhaldsskóla sem voru hluti af starfshópi svo á að nefndin hefði í raun ekki formlega lokið störfum, þ.e. að verkefnið hafi verið tekið út úr nefndinni og fært inn í ráðuneytið áður en nefndin lauk störfum. Menn telja því enn að nokkuð vanti upp á en vissulega ber að fagna þeim áfanga sem hér hefur náðst.

Varðandi síðan samningana við háskólann vona ég að rétt reynist að þeim verði lokið sem allra fyrst. Ég vona að framvegis liggi slíkar niðurstöður fyrir þegar við ræðum hér fjárlög við 2. umr. því þetta eru það stórir liðir að þeir skipta miklu máli í heildarupphæðum til menntakerfisins.