Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 16:13:03 (2034)

2003-11-25 16:13:03# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Norðaust. gerði að umræðuefni samkomulag við Öryrkjabandalagið og framkvæmd þess samkomulags sem gert var í febrúar 2003 og felur í sér áform um að allt að tvöfalda örorkubætur til ungra öryrkja og aldurstengja örorkubætur. Samkomulagið markaði tímamót að því leyti að þar er um breytt kerfi að ræða. Eins og hv. þm. gat um vinnur nefnd að útfærslu þessa samkomulags og mun væntanlega ljúka því verki á næstu dögum. Miðað við þær heimildir sem ég hef þarf hins vegar að áfangaskipta þessu samkomulagi. En það stendur ekki til annað en að standa við það eins og það stendur. Hins vegar gæti þurft að áfangaskipta því þannig að fyrsti áfangi tæki gildi 1. jan. 2004, eins og stendur í samkomulaginu, og síðan verði framhaldið fært í lög og menn meti stöðuna þegar líður á árið í ljósi reynslunnar og hvernig menn uppfylli samkomulagið. Ég undirstrika að það stendur ekki til annað en að standa við þetta samkomulag.