Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 16:15:02 (2035)

2003-11-25 16:15:02# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. lýsir því yfir að standa eigi við samkomulagið. Ég fagna því þó að ég telji reyndar að það ætti ekki að vera neitt umtalsmál. Þá er gert ráð fyrir því að það komi til framkvæmda 1. janúar nk.

Ég vil spyrja hvort störf nefndarinnar, er varða endurskoðun laga og því sem lýtur að framkvæmd þessa samkomulags, séu ekki komin á þann veg að hún geti skilað af sér svo að hægt sé að taka fullt tillit til afgreiðslu hennar fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að svo verði, alla vega að þær upplýsingar sem kveðið er á um að liggi fyrir um fjárþörfina, liggi fyrir, þannig að hægt sé að fara eftir þeim.

Ég vil taka undir og árétta með hæstv. heilbrrh. að þetta var tímamótasamkomulag, samkomulag sem allir glöddust yfir. Þetta átti ekki að vera neitt kosningatrix enda enginn sem lagði það upp með þeim hætti þó að það væri gert rétt fyrir kosningar, ég vil leggja áherslu á það.

Ég vil líka leggja áherslu á að staðið sé við þetta samkomulag og ef fjárþörfin reynist 1,5 milljarðar 1. janúar á að standa við það, enda stendur í samkomulaginu sem undirritað var 25. mars að gert er ráð fyrir rúmum milljarði til verksins, eðlilega var ekki hægt að áætla það nákvæmlega. En mönnum er alveg ljóst að það var rúmur milljarður og reynist þá, en það hefur komið fram í ræðu formanns Öryrkjabandalagsins, einmitt vera um 1,5 milljarða að ræða. Ekki er nú munurinn mikill en heiðarleikinn og trúverðugleikinn skiptir máli, að það sé staðið við það sem gert er.

Hæstv. ráðherra sagði að hann hefði ekki heimildir til annars. Virðulegi forseti. Er það Sjálfstfl. sem stendur í vegi fyrir því að þessar heimildir verði veittar? Ekki trúi ég að hæstv. heilbrrh. vilji ekki standa við það samkomulag sem hann hefur undirritað.