Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 16:18:42 (2037)

2003-11-25 16:18:42# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst alveg eðlilegt að við framlagningu frv. sem slíks í haust hafi verið settur inn milljarður kr. meðan ekki lágu frekari upplýsingar fyrir. En í samkomulaginu stendur ,,rúmur einn milljarður kr.`` sem komi til fullnustu 1. janúar. Það er því ekkert óeðlilegt í þessum ferli nema ef ekki verður staðið við þá fjárþörf sem síðan reynist vera. Hún víkur ekki mikið frá því sem var áætlað, alls ekki mikið, en er kannski mælikvarði á það hvernig þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., tekur á samkomulagi sem þessu, tekur á kjörum fólks sem búið er að gera samkomulag við um að taka á.

Ég skora á hæstv. heilbrrh. og hæstv. ríkisstjórn að vera ekki svo litla í sér að standa ekki við þetta samkomulag til fullnustu. Ég skora á hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnina að taka þetta mál upp á milli 2. og 3. umr., fyrir 3. umr., þannig að allir geti haft fullan sóma af. Ég skora líka á hv. formann fjárln. að beita sér í málinu þannig að við getum staðið að þessu samkomulagi, þingið, eins og að var stefnt með fullri reisn.