Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:05:21 (2043)

2003-11-25 17:05:21# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:05]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að samið hefði verið við Byrgið um lausn mála. Ég fór nákvæmlega yfir það í máli mínu, virðulegi forseti, að í orðum hv. fyrrverandi formanns fjárln., Ólafs Arnar Haraldssonar, á sl. hausti, var talað um að tekið skyldi m.a. á fortíðarvanda Byrgisins. Ég vitnaði til þeirra orða orðrétt og síðan lokaorða hans. Um þetta mál get ég því bara sagt það eitt að það er skilningur þeirra í Byrginu að þar vanti upp á að við það hafi verið staðið. Ég minnist þess að í þennan ræðustól komu þá í andsvar við hv. þáverandi formann fjárln., Ólaf Örn Haraldsson, hv. þm. Jón Kristjánsson og hv. þm. Gísli Einarsson og lýstu yfir mikilli ánægju með þau svör sem formaður fjárln. gaf hér þá og töldu að málið um fortíðarvanda Byrgisins væru í höfn. Það er enginn vandi að fletta þessu upp og finna þessi orð um fortíðarvanda Byrgisins.

Ég skal ekkert segja um það hvernig hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur skilið þetta mál. Það er alveg ljóst að forustumenn Byrgisins skilja það ekki eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hvað þar ber á milli það get ég ekki fullyrt um enda vélaði ég ekki um það.

Ég fagna því sem hv. þm. sagði hér um SÍBS, að það yrði ekki undan skilið við skiptingu fjármuna til heilbrigðisstofnana. Og varðandi það þegar hér var vikið að samkomulagi öryrkja þá minnir mig að hér áðan hafi hæstv. heilbrrh. lýst því yfir að hann teldi að finna yrði lausn á þeim vanda sem út af stæði.