Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:07:51 (2044)

2003-11-25 17:07:51# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:07]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gat um það áðan að fjárln. kynni ekki önnur vinnubrögð og gæti ekki viðhaft önnur vinnubrögð en að samningar ríkisins stæðu. Hvort þeir samningar hafi verið réttir, hvort þeir hafi verið nægjanlegir eða góðir höfum við ekki nokkrar forsendur til þess að leggja eitthvert persónulegt efnismat á, alls ekki. Í gildi er bara þessi eina vinnuregla: Ef samningar eru í gangi við stofnun eða fyrirtæki eða hvern sem er þá gilda samningarnir. Menn sem gera samninga verða bara að átta sig á því að svo er. Ef einhverjir eru óánægðir með samninga, telja þá ekki nægilega góða, þá er verkefnið að reyna að semja upp á nýtt, reyna að gera þá einhverja aðra samninga sem eru betri. Það er ekkert annað að gera. Það er ekkert annað að gera en semja þá aftur. Það er verkefnið. Fjárln. getur ekki lagt neinn dóm á það hvort samningar séu réttir eða rangir. Hún fer eftir samningunum. Þannig er það og ég ætla að þannig verði það.

Varðandi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um samkomulag við öryrkja vil ég segja að ríkisstjórnin gefur yfirlýsingu og það er hennar yfirlýsing sem stendur. Að sjálfsögðu geta einstaka ráðherrar komið og lýst því yfir að þeir telji að þetta eigi að vera öðruvísi, þeir telji að þetta eigi að vera hærra. En það er bara þeirra mál. Þeir eru bara að segja það sem einstaklingar. Það er ein ríkisstjórn í landinu, ekki margar.