Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:30:56 (2047)

2003-11-25 17:30:56# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að ég mun ekki komast yfir öll þau atriði sem ég ætlaði að gera athugasemdir við fyrst búið er að stytta ræðutímann, en það var ekki óvenjulegt að heyra hv. þm. draga í upphafi upp glansmyndina fögru, hér væri allt best og mest. Ég ætla ekki að fjalla mikið um það.

Það var hins vegar athyglisvert þegar hv. þm. fór að hafa áhyggjur af raungengi og ýmsu slíku, vegna þess að ég var með örlítinn texta úr riti Íslandsbanka sem tók einmitt á þessu, þar sem lögð er megináhersla einmitt á þetta, og það er það sem við erum að leggja megináherslu á í okkar nál., að menn reyni að standa almennilega að þessum málum og átti sig á því hvað við erum að sigla inn í. Við erum auðvitað að sigla inn í ákveðið þensluástand og ef ríkisfjármálin eru ekki í lagi, ef þau lausatök sem verið hafa undanfarin ár halda áfram, þ.e. að fjárlagafrv. sé ómarktækt, virkar það ekki inn í það ástand eins og það þarf að gera. Það er fyrst og fremst þetta sem við erum að gagnrýna, þ.e. að fjárlagafrv. og fjárlögin séu marktækt plagg.

Við sjáum það og hv. þm. veit jafn vel og ég hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár. Það eru lögð fram fjárlög, svo koma aukafjárlög og svo og svo miklu er bætt inn af fyrirséðum hlutum eða hlutum sem eiga þess vegna heima í fjárlögum næsta árs. Síðan koma lokafjárlög og þá hefur myndin enn skekkst og breyst. Við leggjum því fyrst og fremst megináherslu á að vanda eigi vinnubrögðin þannig að þetta séu marktæk plögg. Það er eðlilega krafa allra að svo sé. En það sem ég var að vitna til úr riti Íslandsbanka var einmitt það að þess er farið að gæta sífellt meir að aðilar úti á markaðnum eru farnir að átta sig á því að því miður sé allt of lítið hægt að taka mark á þessum plöggum.

Hv. þm. kom inn á það að hæstv. menntmrh. hefði verið að leiðrétta eitthvað í ræðu minni. Það er algjör misskilningur hjá hv. þm. Hæstv. menntmrh. var að segja frá því sem ekki hafði áður komið fram að þær 600 millj. sem ætlaðar eru til framhaldsskólanna eru ekki eingöngu til þess að mæta auknum nemendafjölda, heldur til þess að laga reiknilíkanið. Ég mun í seinna andsvari mínu fara örlítið nánar út í það hvað vantar inn í reiknilíkanið. Það var hreinlega röng fullyrðing hjá hv. þm. að allir sem gerst þekktu teldu að með þessu væri verið að bæta allt sem þyrfti að bæta.