Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:41:25 (2053)

2003-11-25 17:41:25# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:41]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að halda því til haga og upplýsa hv. þm. um hvernig farið hefur verið með tekjuafgang ríkissjóðs á sl. fjárlögum, vil ég bara benda á að árið 2002 voru fjárlög afgreidd þannig að gert var ráð fyrir 18,5 milljarða kr. tekjuafgangi, en þegar ríkisreikningur og lokafjárlög lágu fyrir, reyndist hallinn 8,1 milljarður kr. Það sýnir að eitthvað fer úrskeiðis og það sem hv. þm. var að nefna um stöðu og afgang á rekstri ríkisins, sé ekki alveg rétt.

Ég get tekið undir með hv. þm. að það sé fáránlegt við núverandi aðstæður að skera niður fé til framkvæmda, skera niður fé til vegaframkvæmda úti um land sem styrkir atvinnulífið og eflir það, skera niður fjármagn til uppbyggingar skóla, menntunar, framhaldsskóla, sem styrkir okkur til frambúðar. Það er alrangt að ráðast á það og skera niður við þessar aðstæður. Ég spyr því hv. þm.: Er hann bara ekki reiðubúinn að taka á með okkur og breyta þessum þætti í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar? Ekki skal standa á þeim sem hér stendur að styðja hv. þm. ef hann er vanmáttugur til þess að sækja stuðning til meiri hlutans.

Ég vil leiðrétta það sem kom fram í andsvari hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar áðan, andsvari við hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, að samningar sem einstök ráðuneyti eða ríkið gerir við aðila um rekstur, fá aðeins fullnustu á Alþingi. Aftur og aftur er nauðsynlegt að árétta, að þingmenn sem gegna svo veigamiklum stöðum, líka í meiri hluta Alþingis hér, geri sér grein fyrir því að það er Alþingi sem ræður. Það er hægt að gera samninga, en þeir eru með fyrirvara um samþykkt Alþingis í öllum tilvikum.