Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 17:43:41 (2054)

2003-11-25 17:43:41# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ákaflega rangt hjá hv. þm. að bera saman fjárlögin og endanlega afkomu í reikningum ríkisins, þegar við erum að færa kannski til tugmilljarða í skuldbindingum varðandi lífeyrissjóði. Þetta er ekkert sambærilegt og segir ekkert til um rekstrarhalla eða rekstrarafkomu ríkissjóðs. Það má alls ekki rugla þessu saman á þennan hátt.

Það er mjög nauðsynlegt að menn átti sig á því að meginstefnan í ríkisfjármálum, sem var kynnt og farið yfir rækilega við 1. umr. fjárlaga og stefnumótunina til lengri tíma, er í því fólgin að okkur takist að halda samneyslunni á næstu árum þannig að aukningin verði ekki nema um 2%. Það er meginatriðið í þeirri framtíð sem við sjáum í ríkisfjármálum. Það sem skiptir sköpum. Við verðum að halda aftur af okkur gagnvart samneyslunni. En svo kemur hv. þm. og segir að við, sem erum þó að auka samneysluna verulega og höfum gert það verulega í mörg ár í röð en ætlum núna að reyna að halda okkur innan við 2%, séum að gera atlögu að velferðarkerfinu íslenska. Það er óleyfilegt, hæstv. forseti, að tala svo óvarlega um svo viðkvæm og mikilsverð mál.