Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 18:13:56 (2060)

2003-11-25 18:13:56# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Líkt og í ræðu hv. þm. var sáralítið handfast í hennar svörum.

Ég hef hér, herra forseti, fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar og fjmrh. fyrir komandi ár. Á borðum þingmanna og í höndum þeirra sumra er að finna brtt. frá meiri hluta fjárln. Þar er ekki um að ræða sérstakt átak í heilsugæslumálum, því fer fjarri ef menn skoða stærðirnar. Ég fór yfir það sem í frv. stendur. Í því stendur að það eigi að hefja rekstur á einni heilsugæslustöð í upphafi næsta árs, í Salahverfi í Kópavogi, og síðan í Voga- og Heimahverfi í september, október á næsta ári. Punktur. Basta.

Af því að hv. þm. missti út úr sér, spurði um það og velti því upp af því að ég kem úr Hafnarfirði, að þar eigi einnig að kaupa eða leigja húsnæði undir útibú eða nýja heilsugæslu, þá vil ég upplýsa hv. þm., hafi hún ekki um það vitneskju, að það er búið að lofa slíkri auglýsingu frá því í upphafi þessa árs. Í þessu frv. er ekki ein einasta króna ætluð í rekstur þeirrar heilsugæslu. Þetta er auðvitað moðsuða og tal um ekki neitt.

Þegar menn skoða veruleikann og tölurnar sem að baki liggja þá er Framsfl. ekkert að gera af viti í heilsugæslumálum þjóðarinnar. Hæstv. ráðherra kom til skjalanna fyrir tveimur eða þremur árum og byrjaði á að lýsa því yfir á Bessastöðum að fyrsta verkefni hans yrði að skjóta stoðum undir heilsugæsluna í landinu. Því miður hefur honum ekki áunnist neitt í því þegar kemur að hinum stóru verkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Það er veruleiki hlutanna. Þess vegna er sárgrætilegt en skiljanlegt samt að nú vilji Framsfl. skila þessu verkefni heim í hérað og láta sveitarstjórnum það eftir að gera þetta af einhverju viti.