Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 19:04:01 (2068)

2003-11-25 19:04:01# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[19:04]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega undirtektir hv. þm. Við í Samfylkingunni lítum svo á að hér sé um mjög mikilvægt verkefni að ræða og auðvitað má tengja nokkurn hluta af eigin fé Hitaveitu Suðurnesja við starfsemi hersins á Miðnesheiðinni og því auðvitað náskylt að það renni til starfseminnar á svæðinu. Við teljum að það hafi óhóflega verið látið reka á reiðanum. Menn hafi um árabil vitað að hér mun og hefur dregið verulega úr starfsemi á vegum hersins á Miðnesheiði og við getum ekki setið hér á Alþingi og látið eins og ekkert sé því að þá munum við standa uppi með hundruð atvinnulausra manna á Suðurnesjum áður en við vitum af. Ég hvet til þess að allir flokkar í þinginu sameinist um þá góðu tillögu að selja eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og fá þannig um 2 milljarða kr., hugsanlega, til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Það ætti að geta verið þverpólitískt mál.