Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 19:10:09 (2072)

2003-11-25 19:10:09# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[19:10]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er ekki á neinn hátt að gera athugasemd við styrka fundarstjórn forseta á þessum fundi, hún hefur verið prýðileg í alla staði. Mig langar til þess að biðja virðulegan forseta að beita áhrifamætti sínum og beita sér fyrir því að vekja athygli hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar á því að núna þessa stundina erum við að ræða við 2. umr. um fjárlög ríkisins fyrir komandi ár. Hér í salnum, síðast þegar ég kannaði málið, og hér í húsinu er að finna tvo hæstv. ráðherra af tólf, annars vegar hæstv. fjmrh., sem eðli máls samkvæmt á að sitja hér, og hins vegar hæstv. heilbrrh. Ég vil sérstaklega þakka þeim fyrir það að þeir skuli þó sýna þinginu og þjóðinni þá virðingu að vera hér við þessa umræðu. En ég hins vegar krefst þess og fer fram á það að öðrum hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem enginn hefur fjarvistarleyfi frá störfum þingsins í dag, verði gert viðvart um að hér standi fundur yfir og hér sé verið að véla um eitt mikilvægasta málefni þessa þings, nefnilega fjárlög ríkisins. Og að þeim sé gert viðvart um að hér sé á mælendaskrá m.a. undirritaður sem eigi sitthvað vantalað við þá og vilji spyrja þá ýmissa spurninga. Ég veit ekki hvort ég mun spyrja þá alla um eitt eða annað, það á eftir að koma á daginn, en ég vil að þeir verði hér og leggi við hlustir og taki þátt í umræðum.

Ég bið hæstv. forseta að beita sér fyrir því að nú þegar verði þessum ráðherrum gert viðvart um að hér sé þing að störfum.