Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 19:12:21 (2074)

2003-11-25 19:12:21# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[19:12]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um að eðlilegt sé að ráðherrar séu viðstaddir fjárlagaumræðu við 2. umr. Bæði eru þeir handhafar framkvæmdarvaldsins og eiga að fylgja eftir því sem Alþingi samþykkir og því eðlilegt að þeir hlýði á hvaða skilning Alþingi og alþingismenn leggja í einstakar tillögur eða málflutning sem tengist fjárlagafrv. og fjárlagaafgreiðslunni.

Ég vil líka vekja athygli forseta á að einn liður sem hefur verið harðlega gagnrýndur hér í þinginu er vinnulag og framkoma framkvæmdarvaldsins, einstakra ráðherra gagnvart þinginu og gagnvart einstaka stofnunum á vegum ráðuneytanna þar sem ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar hafa sent út bréf til stofnana sinna þar sem þeim hefur verið meinað eða mælt gegn því að þeir kæmu á fund fjárln. sem hefur verið viðtekin regla og nauðsynlegt fyrir vinnu fjárln. Þetta hefur verið eitt af þeim meginatriðum sem hafa verið gagnrýnd hér, hvað varðar framkomu framkvæmdarvaldsins. Ég tel að Alþingi eigi erfitt með að skilja við þessa umræðu öðruvísi en þessir hæstv. ráðherrar biðjist afsökunar á þessu framferði sínu að hafa skrifað þessi bréf og verið að vinna þannig gegn eðlilegri lýðræðislegri vinnu þingsins. Alla vega komi hingað og skýri í hvaða rétti þeir hafi gert það, vegna þess að það er snar þáttur í störfum fjárln. að eiga aðgang að þessum upplýsingum með eðlilegum hætti en hefur ekki verið virt. Það er því eðlileg krafa, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin sé til staðar þegar verið er að ræða fjárlagafrv. og svari því sem er beint til hennar.