Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 20:51:16 (2080)

2003-11-25 20:51:16# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[20:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að andmæla hv. þm. varðandi mikilvægi þessara verkefna sem hún telur upp. Og auðvitað vitum við öll að þau hús sem eru á listanum yfir verkefni fjárln. í endurgerð gamalla húsa eru eflaust öll góðra gjalda verð og þess verð að fá stuðning.

Það sem ég var hins vegar að gagnrýna var að ekki skuli vera faglega að málum staðið. Ég tel safnasjóðinn vera faglegan vettvang fyrir söfnin og sýningarnar og á sama hátt tel ég húsafriðunarnefnd vera hinn faglega vettvang fyrir gömul hús, verndun gamalla húsa vítt og breitt um landið. Og ég ætla henni ekki að vera svo heimóttarleg að hún hugsi bara til Reykjavíkur í þeim efnum, því hvar eru gömlu húsin okkar? Þau eru vítt og breitt um landið. En ég geri þá kröfu að hv. þingmenn viðurkenni það að þeir hafi ekki sama vit á þessum hlutum sem fagmenn í þessum efnum hafa, og það er fyrst og fremst þetta sem ég er að gagnrýna. Við eigum að hafa fjárveitingar til þessara mála á faglegum grunni eins og ég tíundaði í ræðu minni, eins og gert hefur verið í leiklistarmálunum þar sem leiklistarráð gerir úthlutunartillögur til menntmrn. og ráðuneytið úthlutar til sjálfstæðu leikhúsanna á grundvelli þeirra tillagna.

Sama má segja um safnasjóðinn og ég get talið upp fleiri dæmi í hinu opinbera kerfi þar sem þetta hefur lukkast vel. Og ég skil ekki hvers vegna við getum ekki staðið vörð um faglega úthlutun þegar verndun gamalla húsa er annars vegar.