Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 20:56:58 (2083)

2003-11-25 20:56:58# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[20:56]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Frú forseti. Mér var tjáð að hv. þm., síðasti ræðumaður, hefði óskað eftir því að ég kæmi hér í salinn til þess að svara fyrirspurnum hans. Þar sem ég heyrði ekki fyrirspurnirnar vil ég gefa hv. þm. tækifæri til þess að endurtaka hér einhverjar af þeim spurningum sem hún hefði viljað leggja fyrir mig.

Ég tók eftir því að hv. þm. tekur þátt í því að leggja fram tillögur um að verja 140 milljónum til innlendrar dagskrárgerðar hjá Ríkisútvarpinu. Þetta er að sjálfsögðu fróm tillaga. Það vill hins vegar svo til að Ríkisútvarpið hefur úr miklum fjármunum að spila. Ríkisútvarpinu eru tryggðir miklir fjármunir með afnotagjaldinu, þ.e. um 2 milljarðar. Það hefur verið hækkað nýlega þannig að tekjur Ríkisútvarpsins aukast um 110 milljónir við þá hækkun eina. En síðan hefur löggjafinn tryggt Ríkisútvarpinu heimild til þess að afla sér auglýsingatekna sem það gerir á markaði og eru það heimildir umfram það sem ríkisútvörp víða annars staðar hafa. Breska ríkisútvarpið hefur t.d. ekki heimild til þess að afla sér auglýsingatekna. Ríkisútvarpið hefur því mikla fjármuni milli handa. Það er hins vegar stofnunarinnar sjálfrar að ákveða hvernig hún ver þessum fjármunum og hve miklu hlutfalli af fjármunum hún ver til innlendrar dagskrárgerðar. Hv. þm. geta svo gert það upp við sjálfa sig hvort þeim finnst nógu háu hlutfalli af þessum miklu fjármunum sem Ríkisútvarpið fær vera varið til innlendrar dagskrárgerðar.