Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 21:03:24 (2086)

2003-11-25 21:03:24# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[21:03]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir afar vænt um það þegar hæstv. menntmrh. bendir okkur á að horfa á heildarmyndina því ég auglýsti í ræðu minni eftir langtímastefnu og heildarmynd í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki. Mér finnst það heyra undir hæstv. menntmrh. að gefa okkur skiljanlega heildarmynd í því fjárlagafrv. sem hér er lagt fram af því sem heyrir undir hans ráðuneyti í þeim efnum. Sannleikurinn er sá að það er verið að skera 105 millj. kr. af Háskóla Íslands sem þeir höfðu til ... (Menntmrh.: Þetta er bara misskilningur.) Það er bara misskilningur, segir hæstv. ráðherra hér. (Menntmrh.: Bara tímabundin fjárveiting.) En það var engu að síður samkvæmt bráðabirgðasamkomulagi um rannsóknir við háskólann sem átti að gilda til þriggja ára og það er nú skorið af. (Gripið fram í.) Það er alla vega ekki í fjárlagafrv. ársins 2004. En það er alveg greinilegt, virðulegur forseti, að við hæstv. ráðherra höfum ekki tækifæri til að ræða þetta til enda hér. Andsvörin eru að verða búin. En það sýnir sig alveg að ræður þeirra þingmanna sem hér hafa talað --- mér þykir miður að ég skyldi hafa misst af ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar. Ég þurfti að skreppa á fund á miðjum degi eins og gjarnan er hjá okkur þingmönnum og var að fræðast um erfðabreytt matvæli hjá Umhverfisstofnun á sama tíma. Engu að síður get ég kynnt mér ræðu hans eftir tvo til þrjá daga (Gripið fram í.) þegar búið er að slá hana inn af ræðuriturum og það mun ég gera.

En varðandi málefni framhaldsskólanna rannsókna í háskólanum þá er engu að síður alveg ljóst að samkvæmt þessu fjárlagafrv. og brtt. meiri hlutans er verið að gera minna en áætlanir viðkomandi stofnana ganga út frá. Við erum með í höndunum ályktun stjórnar Félags framhaldsskólakennara um þetta fjárlagafrv. eftir að brtt. meiri hlutans voru birtar og þar kemur alveg skýrt fram að ekki er pláss fyrir 400 nemendur sem gert er ráð fyrir inn í framhaldsskólann í þessum fjárlögum. Ég spyr: Hvað á að gera við þessa 400 nemendur? Ætlast hæstv. menntmrh. til þess að við lokum þá úti og er það þá í samræmi við fyrri yfirlýsingar hans? Erum við ekki með nógu stórt vandamál í brotthvarfi nemenda sem tolla ekki í framhaldsskólunum eða falla frá námi af ýmsum ástæðum? Ég fullyrði að hér er pottur brotinn. Það á að laga þessa viðkomandi fjárlagaliði í þessari umræðu sem nú stendur yfir.