Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 23:48:30 (2101)

2003-11-25 23:48:30# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[23:48]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég rakti það einmitt skilmerkilega að í Salahverfi ætti að opna heilsugæslustöð í janúar og ég rakti það einnig skilmerkilega að Vífilsstaðir ættu að opna væntanlega innan fárra mánaða. Það er þó rétt að geta þess að fjölgun ,,rúma`` á Vífilsstöðum mun ekki endilega koma nærliggjandi byggðarlögum til góða, ekki endilega, því að þar er um að ræða tilflutninga á fólki sem nú liggur á dýrum sérhæfðum spítölum. Það er auðvitað gott og vel. Það er ágætisaðgerð en hún bætir svo sem engu við fyrir það fólk sem er núna heima hjá sér og er í brýnni þörf.

Varðandi Hafnarfjörð fagna ég því alveg sérstaklega að nú liggi fyrir heimild hæstv. fjmrh. um að auglýsa megi þetta og eigi að auglýsa eftir nýju húsnæði. Það er fagnaðarefni. Ég tek því með opnum huga hvernig menn hugsa sér rekstrarformið. Mikilvægast er að koma starfseminni af stað. En sama hvert rekstrarformið er, einhver þarf að borga og það er auðvitað ríkissjóður sem þarf að borga þessa þjónustu. Það vitum við auðvitað báðir, ég og hæstv. ráðherra.