Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 23:50:57 (2103)

2003-11-25 23:50:57# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[23:50]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessi svör hæstv. ráðherra. Það breytir því samt ekki að jafnóþægilegt er það eftir sem áður að vita ekkert hvernig eigi að skipta þessum 800 eða 900 millj. sem til skiptanna eru til nýframkvæmda, endurbóta eða viðhalds í öldrunarmálum. Ef þessar dagsetningar stangast svona á verðum við auðvitað að gera breytingar á því.

Ég þakka hins vegar hæstv. ráðherra fyrir að hann muni gera okkur grein fyrir því, áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar, hvernig umsóknir liggja og hvernig með þær verður farið.

Hann nefnir samráðsnefnd um málefni fatlaðra. Mér er kunnugt um að því miður hafi sú nefnd ekki verið skipuð fyrr en á síðustu dögum og hafi verið umboðslaus allt frá vori. Það hryggir mig en ég hygg að það hafi ekki endilega tafið málið.

Ég trúi að við séum öll sammála um að taka á með ráðherranum í þeim efnum að gera bragarbót á og myndarlegt átak. En ljóst er að þörfin er hér þar sem fólkið er en ekki úti á landi.