Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 23:52:09 (2104)

2003-11-25 23:52:09# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[23:52]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hafði miklar áhyggjur af Ferðaþjónustu bænda. Mér veittist sá heiður að opna uppskeruhátíð ferðaþjónustubænda í síðustu viku og ríkti mjög mikil bjartsýni hjá þessum hópi bænda. Ferðaþjónustan skiptir miklu máli fyrir landsbyggðina og ferðamönnum hefur fjölgað þrátt fyrir gagnstæðar spár í vor vegna stríðsátaka og lungnabólgufaraldurs sem gekk yfir í heiminum.

Ferðamönnum og gistinóttum hefur fjölgað mjög mikið milli ára. Gjaldeyristekjur hafa aukist mikið og ég vil minna hv. þingmann á að ný Norræna kom til landsins sl. vor og er nú að hefja vetrarferðir. Sex verkefni voru styrkt á grundvelli samkomulags iðnrh. og samgrh. til að efla ferðaþjónustu á landsbyggðinni á þessu ári.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að menn eigi að fara gætilega í fjárfestingum í greininni en ég get fullvissað hv. þingmann um að mikil bjartsýni ríkir hjá ferðaþjónustubændum.