Fjárlög 2004

Þriðjudaginn 25. nóvember 2003, kl. 23:55:33 (2107)

2003-11-25 23:55:33# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[23:55]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála. Ég sé mikil sóknarfæri í ferðamennskunni og hef ævinlega og alltaf gert.

Eins og hv. þm. nefndi hefur þeim sem hafa farið hægt og varlega og stigið eitt skref í einu gengið prýðilega en aðrir bændur sem hafa færst of mikið í fang hafa átt í erfiðleikum, því miður, og það er eins og gengur.

Meginkjarni málsins er sá að við megum ekki plata fólk. Því miður eru landsfeðurnir stundum, og hæstv. landbrh. er ekki mannanna bestur í því, að tína þessar kanínur --- þær eru margar --- upp úr höttum og halda því fram að hitt og þetta bjargi öllu, svolítið tilviljanakennt. Einn daginn er það skógurinn, næsta dag er það ferðamennskan, einu sinni var það fiskeldið, ja, það er komið aftur að vísu, og svo var það loðdýraræktin. Ég vil bara einfaldlega halda mig við jörðina því að ég er jarðfastur maður. (Gripið fram í: Það gildir um kanínuna líka.)