2003-11-26 01:01:05# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., BJJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[25:01]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Sú nýbreytni sem nú hefur átt sér stað er að hér er til umræðu bæði tekju- og útgjaldahlið fjárlagafrv. ársins 2004 og ég vil segja það hér að hér er um mikið framfaraspor að ræða að mínu mati þar sem heildarmynd frv. liggur nú þegar fyrir. Á árum áður var tekjuhlið frv. einungis tekin fyrir við 3. umr.

Samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir, að teknu tilliti til breytinga meiri hluta fjárln., verður tekjujöfnuður frv. hagstæður um tæpa 6,8 milljarða kr. og hækkar áætlaður afgangur ríkissjóðs um rúmar 380 millj. kr. á milli 1. og 2. umr. Ég legg áherslu á að tekjuafgangur ríkissjóðs hefur aukist um tæpar 400 millj. kr. í meðförum hv. fjárln.

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt á þeim uppgangstímum sem nú ríkja að hið opinbera sýni aðhald í útgjöldum ríkissjóðs. Við horfum fram á mikla þenslu samfara uppbyggingu stóriðju á Austurlandi og Kárahnjúkavirkjun. Við horfum jafnframt fram á margfeldisáhrif í kjölfar þessara framkvæmda sem lýsa sér m.a. í mikilli uppbyggingu atvinnulífs og íbúðarhúsnæðis á Austurlandi. Allar þessar framkvæmdir eru þensluhvetjandi. Það er því ákaflega mikilvægt svo stöðugleikanum verði ekki ógnað að verðlag haldist nokkuð stöðugt líkt og það hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er nefnilega ekkert langt síðan stjórnvöld börðust við tuga prósenta verðbólgu með skelfilegum afleiðingum fyrir launþega hér á landi og íslenskt þjóðarbú. Ég fullyrði að besta kjarabót launþega hér á landi, og þá í aðdraganda kjarasamninga, er stöðugleiki og því er mikilvægt að stjórnvöld haldi vel utan um fjármál ríkissjóðs. Það er ætlun okkar í meiri hluta fjárln.

Síðan er það óljóst, hæstv. forseti, hvað stjórnarandstaðan ætlar sér í þeim efnum, a.m.k. verður ekki þverfótað hér á Alþingi fyrir brtt. vinstri grænna sem hafa það að meginmarkmiði að auka á þensluna og útgjöld ríkissjóðs. Ég kem síðar að því.

Ég hef eðli málsins samkvæmt ekki setið í fjárln. Alþingis áður og hefur það verið mikil lífsreynsla að taka þátt í störfum nefndarinnar. Nefndin þarf að taka afstöðu til fjölda verkefna víða um land sem leita ásjár hins opinbera í ýmiss konar uppbyggingu. Við í meiri hluta fjárln. höfum sérstaklega í þeim efnum horft til safna og gamalla húsa. Mörg söfn eru að byggjast upp víða um land og tel ég að tilvist þeirra hafi nú þegar sannað gildi sitt. Við horfum einnig til uppbyggingar gamalla sögufrægra húsbygginga sem eru dýrmætur þjóðararfur sem ekki má glata. Sjálfur er ég fæddur og uppalinn á stað þar sem nokkur slík verkefni hafa verið studd dyggilega af hálfu stjórnvalda og ég tel að uppbygging safna og gamalla húsa hafi mikið gildi fyrir sjálfsmynd sveitarfélaga og íbúa þeirra. Það er jafnframt gleðilegt að verða vitni að því að gamalgrónar byggingar rísa úr öskustónni og verða að glæsilegum byggingum og bæjarprýði. Fjölmörg slík dæmi sanna að þeim fjármunum sem varið er til uppbyggingar safna og gamalla húsa er vel varið. Því hafna ég málflutningi sumra stjórnarandstöðuþingmanna hér í kvöld sem hafa gert lítið úr þeim framlögum sem til slíkra bygginga og slíkra verkefna er varið.

Hæstv. forseti. Ég fagna hér sérstaklega því frumkvæði sem hv. formaður fjárln., Magnús Stefánsson, hefur sýnt með því að taka starfsaðferðir fjárln. til endurskoðunar. Ég tel að slík endurskoðun sé nauðsynleg eftir að hafa setið í fjárln. nú á haustdögum. Formaður fjárln. hefur boðað stefnumótunarvinnu í starfi nefndarinnar eftir áramótin og fagna ég því sérstaklega og hef fundið víðtækan stuðning innan nefndarinnar við þessar hugmyndir formanns fjárln. Þessar áherslur formanns fjárln. ber að þakka, um leið og ég lýsi yfir stuðningi mínum við þær áherslur sem formaður fjárln. hefur sýnt í störfum sínum.

Ég vil hér fara yfir einstakar brtt. sem meiri hluti fjárln. hefur lagt til.

Eins og ég rakti í ræðu minni við 1. umr. fjárlagafrv. einkennist það frv. sem hér er til umræðu af áherslu á velferðarmálin; heilbrigðismál, tryggingamál, málaflokk fatlaðra og félagsmál. Aldrei hefur meiri fjármunum verið varið til þessara málaflokka enda veitir ekki af þar sem hér er um félagslega þætti að ræða sem varða ekki síst þá sem hvað minnst mega sín í íslensku þjóðfélagi.

Hvað félagsmálin varðar er í brtt. meiri hluta fjárln. gert ráð fyrir um 5 millj. kr. viðbótarheimild til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til að stytta biðtíma barna á grunnskólaaldri sem talin eru vera með þroskahömlun eða einhverfu og röskun. Í þessum málaflokki þurfum við að gera enn betur og ljóst er að þessir fjármunir munu stytta biðtíma grunnskólabarna eftir þjónustu.

Hvað varðar uppbyggingu í málaflokki fatlaðra eru lánsfjárheimildir Íbúðalánasjóðs auknar um 250 millj. kr. vegna sambýla fatlaðra en búist er við umsóknum í það verkefni á næsta ári. Og vil ég þá enn og aftur minna á það góða samstarf sem ríkir á milli félmrn. og hússjóðs Öryrkjabandalagsins sem er til fyrirmyndar.

Eins og ég gerði grein fyrir í ræðu minni við 1. umr. er mikil uppbygging fram undan í málaflokki fatlaðra með það að markmiði að eyða biðlistum eftir húsnæði fyrir fatlað fólk.

Jafnframt leggur meiri hlutinn til hækkun á fjárveitingum til klúbbsins Geysis sem er vinnumiðlun fyrir geðfatlaða. Geysir vinnur mikið og gott uppbyggingarstarf í þágu geðsjúkra og fyrirhugað er að fjölga stöðugildum til að sinna markmiðum klúbbsins þar sem starfsemin hefur aukist með fjölgun félagsmanna. Þessi verkefni sýna enn betur þær félagslegu áherslur sem birtast í því fjárlagafrv. sem hér um ræðir. Því miður hefur umræðan einkennst, sérstaklega af hálfu Samf., af því að við verjum of miklum fjármunum til heilbrigðismála. Samf. talar um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins, innleiðingu hreinræktaðra markaðslausna í heilbrigðiskerfi. Ekki veit ég á hvaða leið Samf. er um þessar mundir, reyndar hef ég ekki trú á því að hún viti sjálf hvert hún stefnir í þessum málaflokki. (Gripið fram í: Þú hefur ...)

Hvað varðar uppbyggingu atvinnulífsins á landsbyggðinni kalla mörg verkefni á frekari aðgerðir og framlög. Atvinnuþróunarfélögin á landsbyggðinni hafa unnið gott starf í þágu atvinnulífs þar á umliðnum árum og hafa í mörgum tilvikum styrkt atvinnulíf í sveitarfélögum hér á landi. Það er mikilvægt að stjórnvöld hlúi að starfsemi atvinnuþróunarfélaganna. Því leggur meiri hluti nefndarinnar til að 15 millj. kr. verði varið til atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni.

Undir liðnum Náttúrustofur leggur meiri hluti fjárln. til að nýr liður bætist við, Náttúrustofa Norðausturlands, og er lagt til að 7,7 millj. kr. verði lagðar til stofnunarinnar á árinu 2004. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða, m.a. í umhverfislegu tilliti. Mörg af merkustu náttúrufyrirbrigðum landsins er að finna á Norðausturlandi og tímabært að náttúrustofa sé starfrækt þar um slóðir.

Hæstv. forseti. Ég vakti athygli í upphafi máls míns á þeim áhrifum sem þenslan á Austurlandi hefur á fjárlagagerðina og það aðhald sem mjög mikilvægt er fyrir efnahagsstjórnun hér á landi. Hins vegar verða stjórnvöld að standa með Austfirðingum í þeirri þróun sem þar er að eiga sér stað. Því er lagt til að lánsfjárheimildir Íbúðalánasjóðs verði auknar. Við horfum til þess að umsóknir upp á 3 milljarða kr. liggja fyrir vegna uppbyggingar leiguíbúða á Austurlandi og er það ósk stjórnar sjóðsins að geta orðið við þeim umsóknum án þess að dregið verði úr öðrum lánveitingum.

Ég dreg ekkert úr því að ábyrgð stjórnvalda á þeirri ánægjulegu þróun sem nú á sér stað fyrir austan er mikil og því er eðlilegt að liðkað sé fyrir lánveitingum úr Íbúðalánasjóði vegna mikillar uppbyggingar á Austurlandi.

Margir stjórnarandstæðingar hafa haft það á orði hér í þessari umræðu að ábyrgð stjórnarmeirihlutans sé mikil. Ég dreg ekkert úr því, ábyrgð stjórnarmeirihlutans á því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu er mikil og við stöndum undir þeirri ábyrgð, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn. Hins vegar hefur verið athyglisvert að fylgjast með forsvarsmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í umræðunni. Hér hafa vinstri grænir lagt fram tillögur upp á 5,6 milljarða kr. --- ég ætla að endurtaka þessa upphæð, 5.600 millj. kr. --- í útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. (Gripið fram í: Hvað ...?) Auk þess hafa vinstri grænir lagt til að arðgreiðslur Landssíma Íslands lækki um einn milljarð kr. --- 1.000 millj. Á sama tíma og samtök verkafólks hrópa á aðhald í ríkisfjármálum leggur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð það til að við stóraukum ríkisútgjöldin. Og hvað ætlar Vinstri hreyfingin -- grænt framboð að gera til þess að mæta þessum auknu ríkisútgjöldum og þessari stórauknu þenslu? Jú, hún ætlar að hækka skatta. Hún leggur ekki til neinn niðurskurð, ekkert aðhald í neinu þeirra verkefna sem hér liggja fyrir í frv. sem er upp á 270--280 þús. millj. kr., heldur leggur hún til skattahækkanir á almenning í landinu. Þetta eru lausnirnar sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram í þá umræðu sem við höfum tekið fyrir í dag.

Í annan stað hefur farið hér fram merkileg umræða um svik í kosningabaráttunni hvað varðar skattamálin. Ég hélt, hæstv. forseti, að við hefðum tekið þá umræðu hér við 1. umr. fjárlaga. Það hefur ekkert verið svikið í skattamálum. (Gripið fram í: Nú?) Við sögðum fyrir kosningar að við ætluðum að lækka skatta í tengslum við gerð kjarasamninga og trúlega kæmu skattalækkanir fram á síðari hluta kjörtímabilsins. Þetta var sagt og við þetta verður staðið. Ég bið hv. stjórnarandstöðu að fara með rétt mál í þessum efnum því þetta fer að verða dálítið gömul tugga sem þeir tyggja hér hvað eftir annað í ræðustól Alþingis.

Hæstv. forseti. Með því frv. sem hér er til umræðu höldum við áfram að bæta hag allra Íslendinga. Við höldum áfram að bæta hag ríkissjóðs og við höldum áfram að bæta hag þeirra kynslóða sem erfa munu landið.

Því miður virðist mörgum stjórnarandstæðingum ekki skiljast hvað við erum að fara með þeim markmiðum sem við setjum fram í þessu frv. Því miður virðist sem mörgum stjórnarandstæðingnum sé sama þó að ríkissjóður sé rekinn með halla, það sé algjört aukaatriði. Það er eins og ríkissjóður eigi stóran kistil sem hann getur sótt endalausa fjármuni í. Þannig virka hlutirnir ekki.

Hæstv. forseti. Ég vil ljúka máli mínu með þeim orðum að meiri hluti fjárln. Alþingis sem ég á sæti í hefur sýnt aðhald í störfum sínum, við höfum átt gott samstarf við stjórnarandstöðuna sem betur fer og við leggjum hér fram frv. sem mun bæta hag allra Íslendinga og umfram allt íslenska þjóðarbúsins.